Skákfélag Akureyrar fagnar 100 ára afmæli

Áskell Örn Kárason leiðbeinir nemendum í Brekkuskóla í skákkennslu.
Áskell Örn Kárason leiðbeinir nemendum í Brekkuskóla í skákkennslu.

Skákfélag Akureyrar fagnar 100 ára afmæli sínu á næstu dögum, en félagið var stofnað þann 10. febrúar 1919. Margt er á döfinni í tilefni þessa stórafmælis. Í september sl. hófst skákkennsla fyrir 8-9 ára börn í fimm grunnskólum á Akureyri og í sumum skólum hafa eldri börn einnig fengið skákkennslu. Alls er talið að um 500 grunnskólanemendur fái tilsögn í skákíþróttinni á þessu skólaári.  

Áskell Örn Kárason, formaður Skákfélags Akureyrar, segir nokkuð liðið frá því að regluleg skákkennsla tíðkaðist í grunnskólum bæjarins, en framtakið nú hafi gengið framar vonum.  „Þetta hefur vakið mikla lukku og tekist vel. Börnin eru áhugasöm og skólarnir líta á skákina sem góða viðbót við skólastarfið. Við stefnum á að bæta í með vorinu og hafa mót í skólunum og jafnvel keppni á milli skóla eins og þekktist í eina tíð,“ segir Áskell Örn.

Skákfélagið er ekki fjölmennt félag, reglulegir iðkendur á fjórða tuginn, auk um 40 barna sem sækja vikulegar æfingar og barnamót hjá félaginu. Á afmælisdaginn sjálfan, sunnudaginn 10. febrúar býður félagið öllu skákáhugafólki og velunnurum sínum til afmælisveislu kl. 15.00.  Veisluhöldin byrja reyndar kvöldið áður, þann 9. febrúar, með skemmtikvöldi í Skákheimilinu kl. 20.00.  Afmælisdagskráin heldur áfram með Skákþingi Norðlendinga, hinu 85. í röðinni, dagana 22-24. mars, sem verður sérstakt hátíðarmót í tilefni af aldarafmælinu.

Hápunkti nær svo afmælisdagskráin 25. maí-1. júní þegar sterkt alþjóðlegt skákmót verður haldið í Hofi. Þetta afmælismót verður jafnframt Íslandsmót og m.a. teflt um titlana „Skákmeistari Íslands“ og „Skákdrottning Íslands“. Búast má við flestum af sterkustu skákmeisturum landsins á þetta mót, auk erlendra gesta. Samhliða þessu móti fer fram Íslandsmót öldunga, 65 ára og eldri.

 „Það má því gera ráð fyrir því að þessa átta daga verði Akureyri miðpunktur skáklífsins í landinu og fylgst verði með framvindunni á mótinu víða um heim“ sagði Áskell Örn.


Nýjast