Sjaldan launar kálfurinn ofeldið!

Mér finnst full ástæða til þess að upplýsa bæjarbúa og sveitarstjórn um lítið brot af því besta og nýjasta í vinnubrögðum og samskiptum við Norðursiglingu (NS).

Fyrr á þessum vetri og með margra mánaða fyrirvara áttum við í Gentle Giants (GG) pantaða slipptöku í Húsavíkurslipp fyrir Faldinn okkar.  Fyrir tveimur vikum síðan kom ágætur félagi okkar til útgerðarstjóra GG og tilkynnti honum um fyrirmæli frá framkvæmdastjóra „NorðurStyrkjaSiglingar“; að okkar bátar fengju ekki að fara í Húsavíkurslipp í náinni framtíð. Fyrirmælin koma svona korteri áður en vertíðin hefst.  

Ég hringdi í umræddan starfsmann NS og bað hann að staðfesta það sem hann hefði tilkynnt útgerðarstjóra GG.  Það gerði hann símleiðis; sagði þessi fyrirmæli koma beint frá framkvæmdastjóra fyrirtækisins og bar því við að „þeir“ hefðu engan áhuga á því að fá okkur í slipp, eða aðila sem hefðu staðið í því að kæra hans fyrirtæki í allan vetur og verið með leiðindi.  Þeir hefðu engan áhuga fyrir því að þjónusta slíka aðila. 

Ég tjáði umræddum aðila að mér finndist menn leggjast lágt  og þess utan þá hefðum við aldrei kært þá, heldur einungis kvartað til yfirvalda vegna blekkinga í markaðsherferðum og kynningarstarfssemi. Úr því að hann nefndi þetta sem ástæður; þá gæti ég minnt hann kurteislega á þær staðreyndir að hans yfirboðaðar hefðu undanfarin 6 ár eða svo, djöflast linnulaust á öllum mögulegum stöðum í stjórnkerfinu og fjölmiðlum vegna RIB bátanna okkar.  Hans yfirboðarar ættu orðið fleiri ljósmyndir af okkar RIB bátum heldur en framleiðandinn gæti látið sig dreyma um að eignast nokkurn tíma. 

Þessi djöflagangur á bak við tjöldin hefði svo leitt til ákæru á hendur okkur síðastliðið vor; fyrir það að við hefðum mögulega flutt í einhverjum tilvikum 13 farþega í stað 12; á bátum sem hafa flutningsgetu og björgunarbúnað fyrir 24 farþega.  Og væru þess utan öruggustu bátarnir á svæðinu og hannaðir sem slíkir. En regluverkið væri tiltölulega veikt og mikið verið um misvísandi upplýsingar, án þess að fara nánar út í þau fræði. Umræddur starfsmaður vildi ekki ræða þessar staðreyndir og fljótlega lauk okkar samtali; eftir að ég þakkaði honum fyrir staðfestinguna.

Að því búnu sendi ég tölvupóst á framkvæmdastjóra NS og bað hann um að staðfesta við mig þetta með slipp-bannið, vegna þess að við þyrftum að gera ráðstafanir fljótt í ljósi nýrrar stöðu.  Hann svaraði fljótlega, sagðist vera á Tene og kæmi heim um helgina, en ráðlagði mér jafnframt að gera þær ráðstafanir sem ég teldi réttastar í stöðunni.  Ég svaraði til baka og sagði svar um helgina duga; frá því er liðin rúm vika. Mér hefði þótt meiri reisn hjá framkvæmdastjóranum að bera mér þessi skilaboð beint, í stað þess að nota einn af hans starfsmönnum í skítverkin.

Slippurinn seldur

Til þess að gera langa sögu stutta, þá lítur þetta svona út.  Slippurinn var auglýstur og seldur fyrir rúmu ári síðan.  Ég lét það út ganga að við í GG hyggðumst ekki gera tilboð í slippinn, ætluðum ekki að gera NS erfiðara fyrir með að eignast hann; þeir þyrftu meira á honum að halda en GG.   NS gerir einnar krónu tilboð á síðustu stundu í slippinn og bærinn ákveður í kjölfarið að semja við NS uppá einhverjar 6,5 milljónir. Það var gert án þess að auglýsa aftur eins og oft hefur verið gert til þess að „hámarka virði eigna bæjarins“ líkt og nú tíðkast…….eða allavega stundum.  Mér skilst að núverandi framkvæmdastjóri NS hafi í sínu fyrra starfi og hinumegin við borðið viljað fá 20 milljónir á þeim tíma fyrir slippinn. 

Á fundi seljanda fyrir rúmu ári síðan með NS berst það í tal  að ráð sé fyrir því gert að slippurinn muni þjónusta svæðið og þá báta sem þurfa á þeirri þjónustu að halda.  Mig grunar að seljandinn, Norðurþing, hafi hreinlega gleymt að setja það sem skilyrði í kaupsamninginn; enda um ákveðna einokunarstöðu og markaðsráðandi stöðu að ræða sem sveitarfélagið ber vissa ábyrgð á í þessu sambandi.

Neytendastofa

Á hinn bóginn í framhaldi af fyrstu línum og til upplýsinga fyrir þá sem ekki vita.  Þá kvartaði GG til Neytendastofu á miðju síðasta sumri vegna markaðsefnis og kynninga NS; hvar forgrunnur fyrirtækisins var orðinn blekkjandi og villandi fyrir viðskiptavini á svæðinu, heima og erlendis; og hafði verið tvö árin á undan.  Neytendastofa tók við kvörtuninni; fór ítarlega yfir allar staðreyndir, kallaði eftir gögnum og er enn að kalla eftir gögnum með hliðsjón af því lagaumhverfi sem gildir um slík mál.  Niðurstaðan var afskaplega einföld.  NS var bannað í einu og öllu frá og með 8. febrúar síðastliðnum að nota ráðandi Carbon Nautral ofl. auglýsingar og myndmerki því til stuðnings í öllu sínu kynningarefni; með þeirri framsetningu sem tíðkuð hafði verið.  Ástæðan umorðuð:  Umrætt kynningarefni var ætlað til þess að blekkja viðskiptavininn og telja honum trú um að fyrirtækið væri „fagurgrænt“ og mengaði minna en fuglinn fljúgandi.  Skoðun undirritaðs á slíkri blekkingu er sömuleiðis afskaplega einföld:  Stanslaust verið með betlistafinn á lofti í leit að styrkjum fyrir allt og ekkert.  Sannleikurinn virðist vera algert aukaatriði á þeim bænum og hefur verið lengi.  Þess má svo geta að Neytendastofa komst að sambærilegri niðurstöðu árið 2012 þegar NS var bannað að nota önnur slagorð sem stóðust enga frekari skoðun; allt í nafni blekkinga til þess að hafa áhrif á kauphegðun viðskiptavina.  Dapurt að þurfa að fara í slíkar vegferðir til þess að halda sannleikanum á borðinu; en segir um leið mikið um eðli þeirra sem Neytendastofa tekur tvisvar í karphúsið.

RIB

RIB bátarnir okkar sem hafa reynst samfélaginu afar vel; en þyrnir í augum NS frá því að fyrsti báturinn kom vorið 2011. Svo mikill þyrnir að undanfarin ár hafa komið mörg tilvik þar sem bátar beggja fyrirtækja eru nokkuð þéttir úti á Skjálfanda í dauðalogni og jafnvel með dautt á aðalvélum, stutt hver frá öðrum og hljóðbært mjög.  Þá hefur undirritaður og flestir hans skipstjórar heyrt úr hátalarakerfum báta NS þegar leiðsögumenn þeirra eru að hallmæla okkur og RIB bátunum, bölsótast yfir sína eigin farþega um það hversu slæmir bátarnir séu og  ómögulegir í alla staði á flóanum og innan um hvalina. 

Slíku umtali hefur sömuleiðis verið „sáð“ til fólks þar um borð hjá þeim til þess að tjá sig á svipuðum nótum á Trip Advisor.  Þetta er lygilegt en dagsatt og dæmi um vinnubrögðin.  RIB bátarnir hafa hinsvegar ekki verið verri en svo að þeir hafa farið í marga björgunarleiðangra hingað og þangað um Skjálfandaflóa. Þ.m.t. í skipsströnd til bjargar NS og þeirra farþegum í samráði við björgunarsveitina Garðar á Húsavík á undanförnum árum.  Það hefur tekist afar vel við erfiðar aðstæður oft á tíðum og við í GG erum afar stolt af því að hafa getað tekið þátt í slíkum aðgerðum; bæði til aðstoðar NS og öðrum.

Að lokum

Undirritaður á í sínum fórum, efni í mörg bindi um samkeppnina á bak við tjöldin á Húsavík undanfarin 20 ár. Hún hefur verið afskaplega skemmtileg en oftast fyrir neðan belti.  Ég var innilega að vona að með breyttu eignarhaldi og yfirstjórn NS að þá gætu menn farið að vinna af heilindum og keppa fyrir ofan belti á heilbrigðum forsendum sem myndu gagnast heildinni; Húsavík, Norðurþingi og nærsamfélögum.  Mér sýnist að þetta kunni að vera rangt mat miðað við þetta nýjasta útspil NS með slipp-bannið, enda kannski ekki svo auðvelt að vinda ofan af „óþverra-kúltúrnum“ sem hefur viðgengist þar innandyra frá upphafi og grunnurinn að þeim kúltúr lagður af helsta stofnanda fyrirtækisins.

 

Annars er ég góður og lífið er yndislegt !!

Stefán Guðmundsson framkv.stj. GG


Nýjast