Sextán á biðlista eftir búsetu fyrir fatlaða

Framkvæmdum við nýjan sex íbúða búsetukjarna fyrir fatlaða í Klettaborg miðar vel og er ráðgert að h…
Framkvæmdum við nýjan sex íbúða búsetukjarna fyrir fatlaða í Klettaborg miðar vel og er ráðgert að hann verði tilbúinn á næsta ári.

„Markmið fundarins var fyrst og fremst að upplýsa aðstandendur og aðra áhugasama um búsetuþjónustu sem bærinn veitir og stöðu mála í dag. Það sem kom út úr fundinum var helst gott og gagnlegt samtal við fjölmarga fundargesti, sem í mörgum tilvikum eru aðstandendur fatlaðs fólks. Þessi málaflokkur er ofarlega í hugum margra og það er ómetanlegt fyrir sveitarfélagið að fá fram sjónarmið og hugmyndir aðstandenda,“ segir Karólína Gunnarsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs Akureyrarbæjar.

Í síðustu viku fór fram kynningarfundur um búsetu fatlaðs fólks á Akureyri og var vel sóttur. Sveitarfélögum ber að veita fötluðu fólki búsetuúrræði við hæfi. Að sögn Karólínu vinnur Akureyrarbær samkvæmt húsnæðisáætlun og reglum sem sveitarfélagið hefur sett um félagslegt húsnæði, og er markmiðið hverju sinni að veita bestu þjónustu sem völ er á.

Karlmenn í miklum meirihluta

Stefna stjórnvalda er að leggja niður herbergjasambýli og bjóða í staðinn upp á íbúðir í búsetukjarna. Samkvæmt reglugerð skulu íbúðirnar vera í almennri íbúabyggð, helst í nágrenni við þjónustumiðstöð, almenningssamgöngur og þjónustustofnanir og skal miða við að íbúðir í hverjum kjarna séu ekki fleiri en sex.

„Það er markvisst unnið að því að uppfylla þessar kröfur,“ segir Karólína. Akureyrarbær rekur sjö búsetukjarna fyrir fatlað fólk með þroskaskerðingar, þrjá búsetukjarna fyrir geðfatlað fólk, þrjú herbergjasambýli og þjónustar auk þess eitt herbergjasambýli í viðbót. Þessi sértæka búsetuþjónusta er veitt 77 einstaklingum. Athyglisvert er að karlmenn eru í miklum meirihluta, 52 talsins, konur eru 23 og tvö börn.

Biðtíminn brann á fundargestum

Karólína segir að biðtími eftir búsetukjarna hafi helst brunnið á fundarfólki. „Því miður hefur ekki tekist að mæta að fullu þörf fyrir nýjar íbúðir síðustu árin, sérstaklega á árunum eftir efnahagshrunið, og eru í dag 16 einstaklingar á biðlista eftir búsetukjarna. Á næstu misserum er markmiðið að fækka á biðlistanum og er ýmislegt í pípunum,“ segir Karólína. Meðal annars miðar framkvæmdum vel við nýjan sex íbúða búsetukjarna fyrir fatlaða í Klettaborg og er ráðgert að hann verði tilbúinn á næsta ári.

Þá er gert er ráð fyrir því að byggður verði annar sambærilegur búsetukjarni á næstu árum.Í samræmi við stefnu stjórnvalda um að leggja af herbergjasambýli er stefnt að því að breyta sambýlinu í Snægili í litlar stúdíóíbúðir. Á næstu árum er einnig stefnan að stækka sambýlið í Hafnarstræti 16 og breyta í sex íbúðir.

 

 


Nýjast