Sérstök Covid-19 deild á Sjúkrahúsinu á Akureyri

Útbúin hefur verið sérstök einangrunardeild á Sjúkrahúsinu á Akureyri fyrir einstaklinga sem smitaði…
Útbúin hefur verið sérstök einangrunardeild á Sjúkrahúsinu á Akureyri fyrir einstaklinga sem smitaðir eru af Covid-19 veirunni.

Útbúin hefur verið sérstök einangrunardeild á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) fyrir einstaklinga sem smitaðir eru af Covid-19 veirunni. Fjórir einstaklingar hafa hingað til verið lagðir inn á deildina með grun um Covid-19 smit en enginn verið greindur með smit.

Bjarni Jónasson, forstjóri SAk, segir í svari við fyrirspurn blaðsins að allir einstaklingarnir hafi verið á deildinni þar til niðurstaða úr greiningu sýna hafa legið fyrir eða um einn sólarhring. „Í öllum þessum tilfellum hefur sýni reynst neikvætt. Eins og staðan er í dag er enginn inniliggjandi á deildinni,“ segir Bjarni.

Starfsemi sjúkrahússins hefur tekið breytingum útaf ástandinu. Á vef SAk segir að valaðgerðum á skurðstofum hafi verið frestað og er starfsemi þar nú miðuð við aðgerðir sem ekki geta beðið. Dag- og göngudeildir verða einungis opnar fyrir aðgerðir og meðferðir sem ekki þola bið. Sama gildir um önnur erindi sem ekki er hægt er leysa með símtali og þola ekki bið. Þá hefur starfsemi Kristnesspítala verið skert. Bjarni segir mestu áskorunina framundan sé að tryggja mönnun.

Þá hafi allar starfseiningar endurskipulagt vinnu sína til að tryggja aðskilnað og skipað starfsmönnum í aðskilda hópa þar sem því verður við komið. Það sé meðal annars gert til að tryggja það að SAk geti haldið úti þjónustu ef til þess kæmi að hluti hópsins þyrfti í sóttkví eða einangrun.


Nýjast