Sendir frá sér nýja bók

Sandra Bergljót Clausen
Sandra Bergljót Clausen

Akureyringurinn og rithöfundurinn Sandra Bergljót Clausen hefur sent frá sér nýja skáldsögu sem ber heitið Flóttinn. Bókin er sjálfstætt framhald Fjötra sem Sandra sendi frá sér í fyrra og er hún önnur bók seríunnar Hjartablóð. Fjötrar kom út fyrir skemmstu og komst hún á metsölulista kiljunnar. Þetta er blóðheit sería með sögulegu ívafi og fylgst er með örlögum fólks á 17 öldinni.

Í þetta sinn er sögusviðið Ísland. Sagan hefst í Svíþjóð, á uppvaxtarárum aðalpersónunnar Magdalenu. Sólríkum sumardögum og gróskumiklum sveitum Smálanda er lýst í Fjötrum. Frelsi og fögnuður fylgir hverjum degi þar til í lok bókar að Magda missir frelsi sitt.

„Í Flóttanum komumst við nær rótum Íslendingsins. Okkar menningarlegu arfleiðar er minnst og þeirri miklu hörku sem fylgdi afkomu í einangrun og vosbúð. Þó vil ég ekki einungis minnast myrkursins sem oft grúfði yfir eyjunni á þessum tímum heldur einnig björtu kvöldanna sem léðu landinu þeim töfrum sem það býr yfir enn í dag. Hjátrú og huldufólk koma við sögu, það neistar af spennu og sá kveikur slokknar ekki fyrr en á lokaköflunum,“ segir Sandra um bókina.

 


Nýjast