Samherji hagnast um rúma 14 milljarða

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja segir góðu rekstrarniðurstöðu ekki sjálfgefna við núver…
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja segir góðu rekstrarniðurstöðu ekki sjálfgefna við núverandi aðstæður.

„Samherji skilaði góðri afkomu á síðasta ári eins og undanfarin ár. Svo góð niðurstaða er ekki sjálfgefin við núverandi aðstæður heldur afrakstur mikillar samvinnu starfsmanna Samherja sem og samstarfsaðila víðsvegar um heiminn. Við gleðjumst að sjálfsögðu yfir því,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja þegar ársuppgjör fyrir árið 2017 var kynnt að loknum aðalfundi og frá er greint á heimasíðu félagsins.

Samanlagðar tekjur dóttur- og samstarfsfélaga í fimmtán löndum innan samstæðu Samherja, námu um 77 milljörðum króna. Hagnaðurinn af rekstri nam 14,4 milljörðum króna og hækkaði lítillega milli ára. Vóg söluhagnaður eigna þungt og nam um 5 milljörðum króna. Rúmur helmingur starfseminnar er erlendis.

Ársreikningur Samherja er í evrum en er umreiknaður í þessari umfjöllun í íslenskar krónur og hefur styrking íslensku krónunnar nokkur áhrif á þann samanburð milli ára. Samherji er áfram í hópi stærstu skattgreiðenda landsins og greiddi fyrirtækið og starfsmenn þess um 5,1 milljarð til hins opinbera á Íslandi árið 2017.

Stærsta breytingin hjá Samherja á liðnu ári er skipting fyrirtækisins í tvö félög. Með skiptingunni var innlend starfsemi aðgreind með skýrari hætti frá erlendri. Innlenda starfsemin heyrir áfram undir Samherja hf. en Samherji Holding ehf. tók við erlendum eignum. Á  aðalfundinum var ákveðið að 8,5% af hagnaði verði greitt í arð til hluthafa.

 


Nýjast