Rúm milljón frá Mömmum og möffins til SAk

Ingibjörg Jónsdóttir, forstöðuljósmóðir á SAk, ásamt fulltrúum Lady Circle þeim Hrönn Guðmundsdóttur…
Ingibjörg Jónsdóttir, forstöðuljósmóðir á SAk, ásamt fulltrúum Lady Circle þeim Hrönn Guðmundsdóttur, Valdísi Önnu Jónsdóttur, H. Rut Jónsdóttur og Ólöfu Heiðu Óskarsdóttur.

Fulltrúar frá Lady Circle klúbbi 15 afhentu nýverið fæðingardeildinni á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) afrakstur Mömmur og möffins söfnunarinnar frá verslunarmannahelginni. Að þessu sinni söfnuðust 1.071.937 krónur en fyrir afraksturinn verða keyptar nýjar vöggur á deildina.

Í tilkynningu segir að Mömmur og möffins hafi fest sig í sessi sem einn af hugljúfustu viðburðum Einnar með öllu sem haldin er um verslunarmannahelgina á Akureyri. Bæjarbúar, fyrirtæki og hópar taka sig saman og baka möffins kökur en þetta árið voru tæplega 3000 möffins kökur lagðar á borðið og seldar ásamt kaffi og söfum. 

Alls hafa því Mömmur og möffins fært fæðingardeildinni á SAk tæpar sex milljónir frá árinu 2010.


Nýjast