Og þið luguð líka um jólasveininn

Halla Björk Reynisdóttir
Halla Björk Reynisdóttir

Það er augnablik í lífi hvers barns þegar það áttar sig á að foreldrarinir eru ekki alvitrir. Gáfur þeirra ekki yfirnáttúrulegar, ákvarðanir ekki óskeikular. John Steinbeck talar um þetta í bókinni East of Eden og segir (lausleg þýðing mín eigin): “Það er eitt víst með fall [foreldrana]: þeir falla ekki bara pínu lítið; fall þeirra er algjört […] Það er vandasamt verk að byggja það upp aftur og þau ná aldrei fyrri ljóma.”

Mér hefur oft verið hugsað til þessa síðustu ár, þar sem traust til yfirvalda, Alþingis og embættiskerfisins er í algjöru lágmarki. Það er ekki einfalt mál að byggja upp traust að nýju eftir áföll eins og þau sem Ísland varð fyrir. Og til að gera ástandið ennþá verra, þá hafa foreldrar okkar, yfirvöld, ekki séð að sér og aðlagað sig þeim veruleika að börnin eru farin að sjá í gegnum þau. Við trúum ekki lengur þegar fólk segist bara "ekki muna", eða reynir að telja okkur í trú að það “bara vissi ekki af þessu”.

Þegar íslensk þjóð, komin á unglingsaldur í sögu lýðveldisins, uppgötvaði að foreldrarnir voru búnir að leika allskonar leiki og misnota traustið þannig að úr varð hrun, þá var ákall eftir nýrri nálgun, eftir stjórnmálum þar sem ekki væru lengur stundaðir leikir til að “hafa stjórn á börnunum” eða segja bara hálfan sannleikann. Við föttuðum að þegar foreldrarnir reyndu að segja okkur að herða ólina svo að foreldrarnir kæmust til útlanda, þá var það bara fyllerísferð sem við vorum að fórna okkur fyrir. 

Þetta kallaði á nýjar leikreglur - nýja stjórnaskrá. Þetta kallaði á nýja flokka sem ekki eru orðnir samdauna kerfinu. Þetta kallaði á að fólk þyrfti að taka ábyrgð á sínum gjörðum - að börnin fengju að standa jafnfætis foreldrum þegar kæmi að ákvörðunum um framtíð lýðveldisins og þjóðar.

Þannig skildi ég Bjarta Framtíð þegar hún braust fram á sjónarsviðið. BF var allt öðruvísi, vegna þess að þetta snerist ekki um að lofa utanlandsferð, meira nammi á nammidögum eða milljörðum til að byggja flottasta hús í heimi. Björt Framtíð var eins og þroskastökk - vaxtakippur. Pólitíkin snerist um lífsgildi og stefnur, ekki loforð og mútur á óvita börn. Það er ekki spurning um val á milli “fyrirtækja” eða “fjölskyldna”, heldur baráttu fyrir þjóð, mannréttindum og umhverfinu. Það þurfti ekki lengur að spila orðaleiki til þess að hafa stjórn á krökkunum, heldur bara átta sig á að börnin eru orðin fullorðin og við erum tilbúin til að taka þátt.

Björt Framtíð fór í síðustu ríkisstjórn, reyndi að vinna með foreldrunum. Þegar upp komst um sömu leikina og blekkingarnar og við höfum svo oft orðið vitni að, þá var BF nóg boðið og neitaði að taka þátt. 

Ef við viljum halda áfram á þessarri braut. Í átt að fullorðins pólítík og hverfa frá einfeldningslegu lýðskrumi, þá treysti ég á kjósendur að veita fólki eins og Arngrími, Björt, Nichole, Guðlaugu, Jasminu og Óttarri brautargengi, sem okkar fulltrúum í mótun á þjóðfélagi þar sem borin er virðing fyrir þjóðinni.

.....og ég trúi ekki heldur á jólasveininn.

-Halla Björk Reynisdóttir skipar 2.sæti fyrir Bjarta framtíð í norðausturkjördæmi


Nýjast