Ofnarnir á langa ganginum

Júlíus Freyr Theodórsson.
Júlíus Freyr Theodórsson.

Júlíus Freyr Theodórsson heldur um áskorendapennan að þessu sinni.

Núna í vetur byrjaði að læðast að mér sá grunur að ég væri mögulega ekki tvítugur lengur, mögulega eitthvað nær fimmtugu frekar en áðurnefndum barnsaldri.

Sjónin virðist eitthvað tekin að daprast nema þá auðvitað að um sé að ræða bölvað svifrykið sem að skapi þessa torkennilegu móðu yfir öllu. Naflinn á mér ákvað líka að skipta um lögheimili í vetur og fór í ferðalag út fyrir belginn þar sem að hann hreykti sér sem konungur um stund áður en að hann var neyddur til baka að fyrri staðsetningu með hjálp sérþjálfaðs starfsfólks.

Kvöldin hafa styst til muna, svona um níuleitið hljómar það oft orðið eins og ágætis hugmynd að fara að sofa, því maður viti jú aldrei hvað morgundagurinn beri í skauti sér. Hunsi maður þessa prýðishugmynd þá virðist maður líka hitta fleiri asna á förnum vegi.

Eins virðist flest allt tónlistarfólk orðið gersneytt hæfileikum til þess að skapa ódauðleg meistaraverk líkt og ég man svo vel eftir frá fyrri tíð og þar að auki nota þau bara tölvur, kunna víst ekkert á alvöru hljóðfæri. Að sama skapi virðist dagskráin á Rás 1 hafa tekið stórstígum framförum, alveg ótrúlegt hvað þau eru orðin lunkin við að framleiða efni sem höfðar beint til hins almenna borgara og þar er svo óskastundin sjálf alger perla.

Fötin mín virðast líka vera að breytast á sérkennilegan hátt, buxur þrengjast, bolir strekkjast og ekki virðist hægt að renna úlpunni almennilega upp. Húfur virðast þó sleppa ásamt vettlingum en hinsvegar tekur það orðið sérkennilega á að reima skó. Líklega er þar um að ræða einhverskonar nýtt efni í reimunum sem veldur öndunarerfiðleikum þegar komið er of nálægt þeim því þetta virðist lagast fljótlega þegar risið er upp aftur.

Dýnuframleiðendur virðast svo hafa tekið höndum saman til að koma í veg fyrir góðan morgunsvefn með því að stífa allar dýnur upp á þann hátt að maður vaknar fyrir allar aldir með verki í skrokknum. Hvarfli það að manni að reyna að kúra eilítið lengur er sú hugmynd snarlega kæfð í fæðingu, maður þarf jú víst að pissa.

Ég virðist líka vera farinn að safna enni. Í það minnsta er mun meira ef enninu á mér til staðar í dag en var bara fyrir örstuttu síðan og eins eru silfraðar strípur farnar að birtast á víð og dreif í annars hnausþykkum og dökkum ljónsmakkanum. Það virðist svo vera að það hár sem hörfi á brott frá enninu hafi einhverra hluta vegna fundið sér nýja staði á baki, öxlum, höndum og eyrum. Það af því sem tók sér bólstað í eyrunum virðist svo vera farið að hafa áhrif á heyrnina þrátt fyrir að umtalsverðar hreinsunaraðgerðir eigi sér stað með reglulegu millibili. Það er í sjálfu sér ekki alslæmt, maður hefur jú afsökun fyrir því að sleppa ansi mörgu heima fyrir þegar að skilaboðin berast ekki í gegnum frumskóginn.

Versta áfallið kom þó fyrir stuttu þegar að við stákarnir fengum að fara út að leika okkur. Sú útivera færði okkur að stað sem útdeilir fullorðinsdrykkjum í miðbænum.  Þar gengum við inn vígreifir líkt og um Dressman auglýsingu væri að ræða, fyrir framan okkur var hópur stráka á okkar aldri, bara örlítið horaðri. Þeir horfðu á okkur um stund og sögðu hvor við annan: Gefið mönnunum sæti strákar, við getum ekki látið þá standa á þessum aldri.

Þessir krakkaandskotar, það er ekkert uppeldi á þessu lengur.

Mig langar feikilega til þess að skora á mannvininn, fjallkónginn, sjarmatröllið og tónlistarmanninn Stefán Gunnarsson til þess að leiða okkur áfram veginn í næsta blaði.


Nýjast