Öflugt skólakerfi lykilatriði í fjölgun íbúa

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri. Mynd/Þröstur Ernir
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri. Mynd/Þröstur Ernir

Efling á skólakerfinu er lykilatriði í að fá vel menntað fólk til að flytja til Akureyrar. Markmið sveitarfélagsins er að efla skólakerfið og að það verði framúrskarandi. Í skólakerfinu liggja mikil sóknarfæri og er stórt verkefni fyrir bæjarfélagið að efla það ennfrekar. Þetta segir Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri sem er í opnuviðtali í nýjasta tölublaði Vikudags.

„Margir Íslendingar búa erlendis og vilja flytja heim til Íslands. Með öflugu skólakerfi er hægt að fá það fólk hingað norður,“ segir Ásthildur.  Eins og Vikudagur fjallaði um á dögunum er hæg íbúaþróun á Akureyri. Ef íbúafjölgun á Akureyri er skoðuð sérstaklega á milli áranna 2017 og 2018 þá fjölgaði bæjarbúum 92, eða 0,5% sem er töluvert undir landsmeðaltalinu.

Um brýnustu verkefnin á kjörtímabilinu nefnir Ásthildur auk skólamála málefni Akureyrarflugvallar. „Í flugvellinum felast mikil sóknarfæri  varðandi millilandaflug og eflingu innanlandsflugs,“ segir Ásthildur. Þá telur hún ekki skynsamlegt að Akureyri taki yfir rekstur á Akureyrarflugvelli. 

Sjá má ítarlegt viðtal við Ásthildi í prentútgáfu blaðsins. 


Nýjast