„Óásættanlegt að ekkert fjármagn sé til uppbyggingu Akureyrarflugvallar“

Akureyrarflugvöllur. Mynd/Hörður Geirsson.
Akureyrarflugvöllur. Mynd/Hörður Geirsson.

Stjórn Samtaka atvinnurekenda á Akureyri telur með, „öllu óásættanlegt að ekkert fjármagn sé ætlað í uppbyggingu Akureyrarflugvallar sem millilandaflugvallar í drögum að samgönguáætlun til næstu fimm ára.“ Þetta kemur fram í ályktun frá samtökunum. Þar segir að þetta séu gríðarleg vonbrigði þar sem það gengur þvert gegn yfirlýstri stefnu stjórnvalda.

„Einnig hafa umsagnir öryggisnefndar íslenskra atvinnuflugmanna og fulltrúar flugfélaganna undirstrikað hversu aðkallandi uppbygging flugvallarins sé, stækka þarf flughlaðið og gera aðstöðuna sómasamlega til að Akureyrarflugvöllur geti sinnt sínu hlutverki. Stjórn Samtaka atvinnurekenda á Akureyri áréttar að undanfarin ár hefur uppbygging Akureyrarflugvallar verið í forgangi til þess að styrkja frekar ferðaþjónustu á Norðurlandi ásamt því að fylgja eftir þeirri stefnu stjórnvalda að opna fleiri gáttir til landsins.

Nú þegar hefur millilandaflug um Akureyrarflugvöll skilað umtalsverðum fjármunum beint inn í hagkerfið, þannig að ávinningur þess hefur verið ótvíræður. Stjórn Samtaka atvinnurekenda á Akureyri bendir á að ríkisstjórnin hefur talað skýrt hingað til, uppbygging millilandaflugs um Akureyrarflugvöll hefur verið á dagskrá og það er því afar sérstakt að sjá samgönguáætlun svona fram komna. Breyta þarf fyrirliggjandi samgönguáætlun og þar með fjárlögum næsta árs til að framkvæmdir geti hafist, möguleikarnir og tækifærin blasa við,“ segir í ályktuninni.  


Nýjast