Nýtt gæludýr á heimilið?

Rannveig Elíasdóttir.
Rannveig Elíasdóttir.

Nú þegar haustið er mætt af fullum krafti og skólar eru farnir á fullt er ekki óalgengt að fólk fái sér nýtt gæludýr á heimilið. Gæludýr eru þó misvinsæl og þetta ákveðna sem ég hef í huga er þeim (ó)kostum gætt að bjóða sig velkomið á heimili fólks, því í einstaklega mikilli óþökk og fjölgar sér hraðar en kanínur. Við erum að tala um agnarsmátt skordýr sem kallast lús.

Fæstir endast lengi með þennan vágest á heimlinu og vilja ólmir losna við hann um leið og hans verður við vart. En hvað er til ráða?

Fyrst og fremst er mikilvægt að á öllum heimilum sé til lúsakambur og að hann sé notaður reglulega til að koma auga á smit eins fljótt og mögulegt er. Það er góð regla að kemba t.d. á sunnudögum og mæta lúsalaus á mánudegi í skólann/leikskólann. Til eru margar gerðir af kömbum sem eru misjafnir að gæðum en best er að tennurnar séu frekar langar og þéttar og úr stáli.  Einnig eru til rafmagnskambar sem eru ágætir út af fyrir sig en hver og einn finnur hvað virkar best fyrir þá. Fyrir sítt og flókið hár er gott að hafa það rakt, setja í það hárnæringu og kemba það þannig.

Ef lús eða nit, (lúsaregg), finnst í hári er afar mikilvægt að hefja meðferð sem allra fyrst með þar til gerðu sjampói sem fæst í öllum helstu apótekum. Vert er að taka fram að það er óþarfi að meðhöndla þá sem ekki hafa lús/nit. Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum vel og vandlega og muna að endurtaka meðferð eftir 7-8 daga því þá getur klakist úr þeirri nit sem hugsanlega hefur lifað meðferðina af. Á meðan meðferðinni stendur, þ.e. þessa daga, er gott að kemba a.m.k. annan hvern dag í um 2 vikur og gildir það einnig um alla aðra heimilismenn þrátt fyrir að ekki hafi verið lús í þeim fyrir.

Oft eru auglýstir úðar og dropar með ilmefnum eins og tee tree sem eiga að fæla lúsina burt.  Engar rannsóknir styðja að það virki en mögulega geta buffin hjálpað við að draga úr smiti. Börnin þurfa þá að hafa buffin á höfðinu og alls ekki skiptast á buffum þar sem lúsin fer á milli kolla með snertingu. Hún getur hvorki hoppað né flogið.

Frekari upplýsingar eru á heilsuvera.is og landlaeknir.is

Fáum okkur frekar hamstur eða hund ef okkur langar í gæludýr!

-Rannveig Elíasdóttir, hjúkrunarfræðingur í heilsuvernd grunnskólabarna


Nýjast