Nýtt forlag á Akureyri

Las Lesas nefnist nýtt forlag á Akureyri sem gefur út tvær barnabækur fyrir þessi jól. Það eru þau Ásgeir Ólafsson Lie og Hildur Inga Magnadóttir sem skrifa bækurnar og standa að útgáfunni. Fyrsta útgáfa þeirra er bókin Guðjón og guli einhyrningabíllinn - fara til tunglsins og er ævintýrasaga um þá félaga Guðjón og bílinn hans sem breytist á einni nóttu í galdrabíl með hjálp álfa og norðurljósa. Á ferð sinni umhverfis landið lenda þeir alveg óvart á tunglinu og kynnast þar Hannesi sem er snigill og hefur búið þar í 27 ár og lifað á osti. Líka alveg óvart.

Höfundur er Hildur Inga Magnadóttir.

Fjórtándi jólasveinninn er önnur útgáfa Las Lesas sem fjallar um Ólátabelg sem fær ekki að vera með í ráðum Grýlu og Leppalúða þegar þau semja um aðeins þrettán daga og þrettán sveina við bæjarstjórann fyrir langa löngu. Hver er Ólátabelgur? Það er eitt leynikvöld á hverju ári sem er kvöld barnanna og Ólátabelgs.  Fjórtándi jólasveinninn er falleg jólasaga um fjölskylduna einstöku sem býr í fjallinu.

Höfundur er Ásgeir Ólafsson Lie.

Útgáfan blæs til útgáfuteitis í dag, laugardaginn 1. desember klukkan 14:30 í Pennanum Eymundsson Hafnarstræti. Þangað eru allir velkomnir. Höfundar og þeir sem koma að bókaútgáfunni verða á staðnum. Sérstakt tilboð verður á bókunum á meðan á hátíðinni stendur. Bækurnar eru til sölu í eftirtöldum verslunum; Pennans Eymundssonar. Smáralind, Kringlunni, Austurstræti og Skólavörðustíg. Einnig fást þær í verslunum Nettó.

 


Nýjast