Ný Oddeyrarbyggð: Með og á móti

Tölvuteiknuð mynd af fyrirhuguðu svæði.
Tölvuteiknuð mynd af fyrirhuguðu svæði.

Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikudags sem unnið var af nemum í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri.

Skiptar skoðanir hafa verið um nýtt skipulag um Oddeyrarbyggð og hefur sú deila ekki farið framhjá íbúum Akureyrar. Til þess að setja hlutina í samhengi höfðum við samband við tvo aðila til þess að setja fram þau helstu sjónarmið báðum megin deilunnar.

Hér útlista þeir Jón Ingi Cæsarsson, formaður Póstmannafélags Íslands, og Ragnar Sverrisson, kaupmaður, sínar mismunandi skoðanir á málinu - annars vegar á móti og hins vegar fylgjandi  skipulaginu.

Jón Ingi Cæsarsson:

Nýtt aðalskipulag og rammaskipulag Oddeyrar [var] unnið í góðri sátt og samvinnu hverfisnefndar, skipulagsráðs og bæjarstjórnar. Fullkomlega óásættanlegt að henda inn sprengju af þessari tegund og rjúfa þá góðu sátt sem íbúar og bæjarstjórn náðu með þeirri vinnu. Hæð húsa á mjög litlum reit skaðar mjög ásýnd Oddeyrar bæði hvað varðar nálægð og ekki síður í fjarlægð. Að boða slíkar breytingar er móðgun við þá sem eiga eignir á reitnum og skal tekið fram að hugmyndasmiðir eiga ekki nema hluta svæðisins. Áhrif á marga þætti hefur ekkert verið skoðuð eða rædd með formlegum hætti.  Flugöryggi er ógnað, hafnarstarfsemi verður fyrir verulegum áhrifum og mótmæli hafa borist frá Hafnarstjórn. Vindstrengir við þessi miklu hús verða miklir, allir sem þekkja til veðurlags á þessu svæði vita að þar gerir mikla storma í ákveðnum vindáttum.

Jón Ingi Cæsarsson

Massi boðaðra bygginga er óhóflegur og engar rannsóknir liggja fyrir um áhrif á umferð, þungi bygginga á viðkvæmt land er óþekkt stærð og skuggavarp dregur stórlega úr verðmæti fyrirhugaðra byggingareita austan og norðan þessa reits. Áhrif á nærliggjandi eignir til verðrýrnunar eru veruleg.

Líklegt að þessi áform muni draga úr áhuga á að byggja upp á Kelduhverfisreitnum og þar með hafa mikil áhrif á uppbyggingu á svæðinu. Núgildandi hugmyndir byggja á að þarna verði byggt upp í hóflegri stærð í takt við þá byggð sem fyrir er á Oddeyri. Gránufélagshúsin sem byggð voru eftir miðja 19. öld hverfa gjörsamlega og þessi hús sem troðið er í bakgarð þeirra stórskaða mestu menningarverðmæti Oddeyrar. Óljóst er hvaða áhrif þetta gæti haft á undirstöður þeirra húsa.

Ragnar Sverrrisson:

Nú þegar fram hafa komið upplýsingar um að Akureyringar eigi flesta einkabíla á byggðu bóli, noti þá meira en aðrir menn og séu auk þess ákaflega sporlatir er eðlilegt að leiða hugann að því hvað sé til ráða. Flestir vilja að bærinn okkar sé vistvænn og skipulagi þannig háttað að íbúar þurfi sem minnst á vélknúnum farartækjum að halda. Þess vegna varð ég ánægður þegar fram kom tillaga um að byggja upp myndarlega húsasamstæðu á svæðinu fyrir norðan Gránufélagshúsin þar sem nú er lítið annað en skúrar og hús sem eru til lítils sóma. Þarna gætu búið fjöldi manns sem myndi nýta alla innviði sem fyrir hendi eru á Eyrinni og verða í göngufæri frá miðbænum. 

Ragnar Sverrisson

Eins og vænta mátti skiptust bæjarbúar fljótt í andstæðar fylkingar um þessa róttæku hugmynd, annaðhvort jákvæðir eða harðir á móti. Nú er það svo að þeir sem standa fyrir þessum tillögum hafa lýst sig reiðubúna að ræða við þá sem hafa athugasemdir fram að færa og eru tilbúnir að útfæra hugmynd sína þannig að sem flestir geti sætt sig við þær; vilja ekki keyra málið í gegn með þjösnaskap heldur í sátt við samfélagið og fyrirtæki á svæðinu. Af þessu er ljóst að hér er ekki um að ræða svart-hvíta umræðu; annaðhvort allt eða ekkert.  Því er mikilvægt að þeir sem vilja koma breytingartillögum sínum á framfæri geri það í því ferli sem nú stendur yfir. Síðan verði allt vegið og metið og skoðað til þrautar. Takmarkið hlýtur að vera að komast að sem víðtækastri sátt um uppbyggingu á umræddu svæði enda mikið í húfi. 

-HHD

 


Nýjast