„Nú er þetta af eða á“

Uppbygging á Akureyrarflugvelli er í algjörri óvissu.
Uppbygging á Akureyrarflugvelli er í algjörri óvissu.

Uppbygging á Akureyrarflugvelli sem millilandaflugvöllur er alfarið á sviði ríkisins en ekki Isavia. Uppbyggingin flokkast undir byggðamál. Þetta kom fram í máli fulltrúa Isavia á ráðstefnu í Hofi á þriðjudaginn var þar sem rætt var um framtíð flugs um Akureyrarflugvöll.

Kallað var eftir skýrum svörum frá yfirvöldum hvort að leggjast eigi í uppbyggingu á Akureyrarflugvelli eða ekki. Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir í samtali við Vikudag að áherslur Isavia hafi komið skýrt fram á fundinum. Nú sé boltinn hjá stjórnvöldum. „Það er alveg skýrt hvað þarf að gera og allir eru sammála um það; að byggja upp flugstöðina. Markaðurinn er til staðar. Það er alveg skýrt að ákvörðunin liggur hjá stjórnvöldum um hvort við ætlum að reka hér millilandaflugvöll eða eingöngu innanlandsflugvöll.“

Segir gerlegt að ná 13 flugferðum á dag

Fram kom í máli forstjóra Isavia á fundinum að til að flugvöllurinn muni standa undir sér sem millilandaflugvöllur þurfi að vera minnst þrettán flug á dag. Arnheiður segir það vel gerlegt. „Mér fannst forstjórinn gera lítið úr markaðsmöguleikunum á flugvellinum og ég spyr hvers vegna ætti ekki að vera hægt að ná hér þrettán flugferðum á dag? Ferðaþjónustan getur tekið við því og markaðurinn er til staðar. Við erum með 600 þúsund ferðamenn á Norðurlandi sem er sami fjöldi og var á landinu öllu árið 2012. Ef það verður tekin sú ákvörðun að hér verði millilandaflugvöllur er ekkert sem segir að hann geti ekki orðið stór og öflugur. Það gæti gerst mjög hratt.“

Boltinn hjá stjórnvöldum

Um næstu skref í framhaldi af fundinum segir Arnheiður að nú þurfi að kalla stjórnvöld að borðinu.

„Nú þarf svör frá þingmönnum og ráðuneytum. Erum við að fara að vinna eingöngu í innanlandsflugi eða byggja upp millilandaflugvöll? Við erum svolítið stopp eins og staðan er í dag. Flugstöðin er sprungin og ekki hægt að bæta við flugi án þess að gera breytingar. Nú er þetta af eða á,“ segir Arnheiður.       


Nýjast