Níu manns fastir á SAk vegna úrræðaleysis að lokinni meðferð

Vegna fárra dvalarrýma þurfa sjúklingar að dvelja á Sjúkrahúsinu á Akureyri lengur en þörf er á.
Vegna fárra dvalarrýma þurfa sjúklingar að dvelja á Sjúkrahúsinu á Akureyri lengur en þörf er á.

Bjarni Jónasson forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) segir fráflæðisvanda frá sjúkrahúsinu vera veruleikann í dag en hann skrifar pistil á heimasíðu SAk um vandamálið. Talsvert hefur verið fjallað um fá dvalarrými fyrir fólk á Akureyri sem lokið hefur meðferð á SAk og greindi Fréttablaðið frá því á dögunum að sjúklingur hafi þurft að dvelja á Ólafsfirði fjarri fjölskyldunni sinni vegna plássleysis.

„Fólk sem komið er yfir miðjan aldur þarf meira á sjúkrahúsþjónustu að halda en yngri aldurshópar. Nú þegar sá hópur fer stækkandi fjölgar innlögnum á sjúkrahúsið. Í gegnum tíðina hefur oftast gengið þokkalega að útskrifa sjúklinga heim eða í önnur úrræði. Æ oftar erum við nú síðustu misserin að lenda í miklum vandræðum við að útskrifa sjúklinga heim eða í dvalar-/ hjúkrunarrými. Bráðadeildir eru ekki dvalarúrræði fyrir sjúklinga sem lokið hafa sjúkrahúsmeðferð,“ skrifar Bjarni.

Í dag eru níu sjúklingar sem lokið hafa meðferð og bíða eftir legurými eða öðru úrræði. Það samsvarar 22% rýma á viðkomandi bráðadeildum.

„Þeir eru þar vegna þess að ekki eru til staðar legurými utan sjúkrahússins. Það er sú staðreynd sem við blasir í dag hvað svo sem aðrir segja. Það er alveg ljóst að þennan vanda þarf að leysa sem fyrst með hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi. Það er samvinnuverkefni allra sem koma að þjónustu við þennan hóp,“ segir Bjarni í pistlinum.

 


Nýjast