Níu mánaða fangelsi fyrir að hóta ljósmæðrum á SAk

Maðurinn krafðist þess að ljósmæður afhentu honum morfín úr lyfjabirgðum fæðingardeildarinnar á SAk.
Maðurinn krafðist þess að ljósmæður afhentu honum morfín úr lyfjabirgðum fæðingardeildarinnar á SAk.

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í níu mánaða fangelsi fyrir að brjótast inn á fæðingardeild Sjúkrahússins á Akureyri í mars í fyrra, vopnaður sprautunál. Maðurinn hótaði tveimur ljósmæðrum á vakt og sagði nálina bera HIV smit. Hann krafðist þess að ljósmæður afhentu honum morfín úr lyfjabirgðum deildarinnar.

Í dómnum kemur fram að brotin séu litin alvarlegum augum þar sem þau beindust að ljósmæðrum við störf á fæðingardeild. Maðurinn er sagður hafa verið mjög illa áttaður þegar brotin áttu sér stað. Af níu mánaða dómi eru sex mánuðir skilorðsbundnir til þriggja ára. Til mildunar er horft til þess að ákærði hefur ekki gerst sekur um önnur ofbeldisbrot. Hann játaði brot sín, hefur greitt bætur vegna verknaðarins, iðrast mjög og hefur tekið af festu á sínum málum í kjölfar atviksins.

Frá þessu er greint á Vísir.is.


Nýjast