Nei takk við ókeypis máltíðum í skólum bæjarins

Helga Dögg Sverrisdóttir.
Helga Dögg Sverrisdóttir.

Það er ekki öll vitleysan eins í samfélaginu Akureyri. Gjaldfrjálsar máltíðir handa skólabörnum. Á samfélagið nú að taka þá foreldraábyrgð á sínar herðar að fæða börnin. Ég segi nei takk. Leyfum foreldrum að axla þá ábyrgð sem þeir tóku að sér þegar ákvörðun um barn var tekin.

Hafa starfsmenn ráðhússins eða bæjarfulltrúar ekki efni á að fæða börn sín eða bæjarstjóri? Hafa hjúkrunarfræðingar, læknar, lífeindafræðingar og sjúkraliðar í bænum ekki efni á að fæða börnin sín? Hafa starfsmenn þjónustufyrirtækja, bílasalar og fasteignasalar ekki ráð á skólamáltíð fyrir börn sín? Hvað með alla sjómennina? Hafa kennarar og stjórnendur skóla svo lág laun að þeir geta ekki fætt börn sín? Svona gæti ég lengi talið upp.

Vissulega er til hópur í bæjarfélaginu sem er illa staddur, svo illa staddur að hann getur ekki gefið börnum sínum góðan mat. Sá hópur er í miklum minnihluta. Þegar sú staða kemur upp er í lagi að grípa inn í. Kennarar og stjórnendur skóla vita yfirleitt um þau tilfelli og geta séð til þess að þau börn fái ókeypis máltíð í skólanum. Veit ekki betur en það sé gert því stjórnendum grunnskólanna er ekki sama um þessi börn.

Hef sjaldan heyrt jafnmikla vitleysu að þorp þurfi til að fæða barn. Hef reyndar heyrt það í tengslum við uppeldi, að heilt þorp þurfi til að ala upp barn, sem mér finnst miklu skynsamlegra. Nei notum fjármuni okkar í annað og leyfum foreldrum að bera þá ábyrgð sem þeir eiga með réttu að gera, fæða, klæða og ala upp barn sitt.

-Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari.


Nýjast