Myndgreiningadeild hlaut hvatningar-verðlaun SAk

Verðlaunahafarnir; starfsfólk myndgreiningadeildar Sjúkrahússins á Akureyri:
Aftari röð, talið frá …
Verðlaunahafarnir; starfsfólk myndgreiningadeildar Sjúkrahússins á Akureyri: Aftari röð, talið frá vinstri: Marta Rós Ormsdóttir, Vishal Kalia, Margrét Björgvinsdóttir, Elsa Baldvinsdóttir, Friðrika Valgarðsdóttir, Björn Sigurðsson og Borghildur B. Ólafsdóttir. Fremri röð, talið frá vinstri: Amanda Helga Elvarsdóttir, Hugrún Pála Birnisdóttir, Berglind Eik Ólafsdóttir, Berglind Jónsdóttir, Vibhuti Kalia, Klara Fanney Stefánsdóttir, Elvar Örn Birgisson og Imroz Singh Sachdev. Á myndina vantar Bryndísi Lind Bryngeirsdóttur, Fanneyju Harðardóttur, Hólmfríði Davíðsdóttur, Heiðbjörtu Friðriksdóttur, Sóleyju Ákadóttur, Sólveigu Hallgrímsdóttur, Völu Frímannsdóttur og Orra Einarsson. Mynd: BB

Framkvæmdastjórn Sjúkrahússins á Akureyri veitir árlega hvatningarverðlaun til starfseiningar eða hóps starfsmanna sem hefur á einhvern hátt haft þau áhrif á starfsemi sjúkrahússins að það gefi tilefni til jákvæðrar endurgjafar og eftirbreytni. Í ár hlutu allir starfsmenn sem starfa við myndgreiningar hvatningarverðlaun SAk og voru verðlaunin afhent á ársfundi sjúkrahússins, sem haldinn var miðvikudaginn 9. maí.

Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri bráða- og þróunarsviðs, kynnti verðlaunahafann á ársfundinum. Hún sagði myndgreiningadeildina eina af stoðþjónustudeildum sjúkrahússins og sagði hana „með eftirtektarverðum hætti hafa getið sér gott orð varðandi þróun klínískrar þjónustu, virkni í fjarheilbrigðisþjónustu með úrlestri mynda utan SAk, fyrir góðan tækjabúnað og mikinn metnað á sviði umbóta og faglegra starfa.“

Stóraukið umfang

Í máli Hildigunnar koma fram að umfang starfsemi myndgreiningadeildar hafi aukist mikið undanfarið og megi þar helst nefna um 40% aukningu í klínískum brjóstarannsóknum, sem megi að mestu rekja til þess að upptökusvæði sjúkrahússins hafi stækkað verulega. „Einnig má geta þess að fjarþjónustu í myndgreiningum er sinnt af okkar starfsfólki til annarra heilbrigðisstofnana á Norður- og Austurlandi og er það mikilvægt innlegg í sérfræði- og bráðaþjónustu. Ennfremur hafa verið innleiddar nýjungar á sviði myndgreiningarannsókna,“ sagði Hildigunnur.

Mikil fagmennska í vísinda- og umbótastarfi

„Það sem mestu máli skiptir þegar horft er til árangurs er að hafa góðu starfsfólki á að skipa. Starfsfólk myndgreiningadeildarinnar hefur skapað sér þann orðstír að veita góða þjónustu, vera lausnamiðað og sýna frumkvæði. Fagmennska er mikil í vísindastarfi og öllu umbótastarfi, hvort sem það varðar endurskoðun verkferla og vinnuleiðbeininga eða nýja þjónustu sem bætir flæði, tryggir öryggi og nýtir tíma starfsmanna sem best. Framkvæmdastjórn vill með þessum verðlaunum hvetja starfsfólk deildarinnar til að halda ótrautt áfram á þeirri vegferð sem gefist hefur svo vel undanfarið,“ sagði Hildigunnur.

 


Nýjast