„Mörg spennandi verkefni í farvatninu“

Finnur Yngvi.
Finnur Yngvi.

Finnur Yngvi Kristinsson hefur verið ráðinn sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit og tekur hann við af Ólafi Rúnari Ólafssyni sem þegar hefur látið af störfum að eigin ósk. Finnur Yngvi lauk BS námi í viðskiptafræði ásamt MBA námi í verkefnisstjórnun frá Arizonaí Bandaríkjunum árið 2008 og hefur frá því verið búsettur á Siglufirði þar sem hann hefur ásamt eiginkonu sinni leitt rekstur og uppbyggingu Rauðku ehf.

Finnur Yngvi er einnig rafvirkjameistari og menntaður raf- og rekstrariðnfræðingur frá Tækniháskóla Íslands. „Eftir rúm níu ár í þessari viðamiklu uppbyggingu á Siglufirði var kominn tími á breytingar hjá okkur hjónum og þegar ég sá þetta spennandi tækifæri opnast í Eyjafjarðarsveit ákvað ég að láta slag standa“ segir Finnur Yngvi á vef Eyjafjarðarsveitar. 

„Ég tel starf sveitastjóra Eyjafjarðasveitar afar spennandi starf, bæði fjölbreytt og krefjandi. Það eru mörg spennandi verkefni í farvatninu hjá Eyjafjarðarsveit.“

Finnur Yngvi er 39 ára og giftur Sigríði Maríu Róbertsdóttur og eiga þau þrjú börn. Hann var valinn úr hópi 22 umsækjenda og kemur til starfa í byrjun september.


Nýjast