Miklar framkvæmdir við umferðargötur

Framkvæmdir við Glerárgötu hafa vart farið framhjá bæjarbúum. Mynd/Þröstur Ernir.
Framkvæmdir við Glerárgötu hafa vart farið framhjá bæjarbúum. Mynd/Þröstur Ernir.

Miklar framkvæmdir eru nú við þungar umferðaræðar á Akureyri, bæði við Glerárgötu og Þórunnarstræti. Framkvæmdir á vegum Akureyrarbæjar og Vegagerðarinnar við gatnamót Glerárgötu og Þórunnarstrætis hófust í síðustu viku. Um er að ræða endurbætur á gatnamótunum sem hófust sl. haust.

Í ár verður gerður vinstribeygjuvasi á miðeyju Glerárgötu ásamt breytingum á útkeyrslunni úr verslunargötunni við húsaröðina að austan verðu og inn á gatnamótin. Einnig verða gatnamót Glerárgötu og Tryggvabrautar lagfærð og vinstribeygjuvasi Glerárgötunnar verður lengdur til suðurs. Nyrstu útkeyrslunni úr verslunargötunni við húsaröðina verður einnig breytt. Stærstu verkþættirnir í þessari framkvæmd ættu verða langt komnir undir lok mánaðarins, segir á vef Akureyrarbæjar.

Áfram verði þó unnið að endurbótum á gatnamótunum, til dæmis við að fjölga umferðarljósastaurum. Samhliða þessum breytingum mun svo Norðurorka halda áfram með svokallaða Hjalteyrarlögn og þvera Þórunnarstrætið.

Á vef Akureyrarbæjar segir ennfremur að mikilvægt sé að vegfarendur sýni nauðsyn slíkra framkvæmda skilning, séu þolinmóðir og tillitssamir.


Nýjast