Mikill uppgangur í Eyjafjarðarsveit

Sveitarstjóri segir mikinn viðsnúning vera í Eyjafjarðarsveit frá fækkun fyrri ára. Mynd/Þröstur Ern…
Sveitarstjóri segir mikinn viðsnúning vera í Eyjafjarðarsveit frá fækkun fyrri ára. Mynd/Þröstur Ernir.

Talsverð uppbygging er á Hrafnagili í Eyjafarðarsveit. Húsakosti er að fjölga svo möguleikarnir til búsetu hafa aukist. Þá er töluverð eftirspurn eftir lóðum á svæðinu. Þetta segir Finnur Yngvi Kristinsson sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit.

„Undanfarin ár hefur verið töluverður uppgangur hjá sveitarfélaginu og núna erum við að undirbúa nokkrar lóðir. Við erum að fara í áframhaldandi gatnagerð fyrir lóðir í nýja hverfinu norðan við skólann og sundlaugina,“ segir Finnur.

Íbúum í sveitarfélaginu hefur farið fjölgandi og eru nú 1.030, sem er aukning á milli ára. Finnur segir sérstaklega ánægjulegt hversu mikið af ungu barnafólki sækist eftir húsnæði á svæðinu. Þannig hafi nemendum í Hrafngilsskóla fjölgað um tíu á milli ára og hófu 150 nemendur nám við skólann í haust. Þá hefur fjöldinn á leikskólanum Krummakoti einnig aukist verulega, þar eru nú 62 börn sem er fjölgun um 16 frá því í fyrrahaust. Og útlit er fyrir frekari fjölgun á leikskólanum fyrir áramót.

"Mikill viðsnúningur"

„Þetta er sérlega jákvætt og er mikill viðsnúningur frá fækkun fyrri ára í sveitarfélaginu,“ segir Finnur, sem kemur frá Mosfellsbæ og tók við sveitarstjórastarfinu í sumar. Hann segir mikil lífsgæði fólgin í búsetu á svæðinu.

„Ég get vart ímyndað mér betri stað til að búa á. Hér er frábær sundlaug, æðislegur skóli, góðar samgöngur og frábært samfélag. Börnin hafa líka aðgang að fjölbreyttum tómstundum og stunda mikið af þeim á skólatíma svo tíminn sem fjölskyldurnar eiga saman eykst. Fyrir mig er það stór hluti af auknum lífsgæðum,“ segir Finnur.


Nýjast