Mikil aðsókn í nýjar íbúðir fyrir tekjulægri

Séð yfir Hagahverfi. Mynd/Hörður Geirsson.
Séð yfir Hagahverfi. Mynd/Hörður Geirsson.

Framkvæmdir við byggingu fjölbýlishúss við Gudmannshaga 2 í Hagahverfi á Akureyri hófust nýverið. Í húsinu verða rúmlega þrjátíu íbúðir og verða þær tilbúnar til afhendingar eftir rúmt ár. Nú þegar hafa 50 manns lagt inn umsókn um íbúð.

Þetta kemur fram í grein sem Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju skrifar í blaðinu. Bjarg íbúðarfélag stefnir að því að byggja hagkvæmar, vel hannaðar íbúðir víða um land, meðal annars á Eyjafjarðarsvæðinu. Á Akureyri er stefnt að byggingu 75 íbúða. „Þetta er merkur áfangi og víst er að íbúðirnar koma að góðum notum,“ segir Björn í greininni en sjá má greinina í heild sinni aftar í blaðinu.

Um samstarf Akureyrarbæjar og Bjargs íbúðafélags er að ræða sem felur í sér að bærinn veiti 12% stofnframlag til byggingar 75 nýrra íbúða á vegum félagsins á Akureyri á næstu þremur árum. Þetta er gert í ljósi þeirra brýnu verkefna sem blasa við í húsnæðismálum. Bjarg íbúðafélag var stofnað af ASÍ og BSRB í lok árs 2016. Félagið er rekið án hagnaðarsjónarmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu á hagstæðu verði.

 


Nýjast