Meira framboð og hægir á verðhækkunum

„Það færist í vöxt að eignir séu seldar á verði undir því sem ásett er og eða á ásettu verði.Síðastliðin ár var alltaf svolítið um að eignir færu á hærra verði en á þær var sett,“ segir Arnar Birgisson fasteignasali hjá Eignaveri. Um fasteignamarkað gildi sömu reglur og í öðrum viðskiptum, markaðurinn ræður verðinu.

Tekur lengri tíma að selja

Arnar segir að fasteignamarkaður á Akureyri hafi verið í góðu jafnvægi. Góðar eignir á góðum stað seljist hratt og góð sala hafi verið í nýbyggingum undanfarið. „Það hefur myndast ákveðið jafnvægi á markaði, verðið hækkað jafnt og þétt árin 2017 og 2018, en núna síðustu mánuði hefur verið minna um hækkanir. „Salan í ár hefur verið góð og við finnum ekki fyrir neinum samdrætti, en helsta breyting frá fyrra ári er það það er mun meira framboð af eiginum núna en var í fyrra sem leiðir til þess að það tekur stundum lengri tíma að selja eignirnar,“ segir hann.

Samkeppni á lánamarkaði

Vextir hafa lækkað og segir Arnar það hafa gríðarlega mikið að segja og eins hafi lífeyrissjóðir komið sterkir inn á lánamarkað og boðið lægri vexti. „Þannig hefur skapast samkeppni á lánamarkaði sem hefur aftur í för með sér enn lægri vexti sem speglast svo í meiri sölu fasteigna.“

Kaupmáttaraukning liðinna ára hefur einnig þau áhrif að salan er hressilegri og þá nefnir Arnar að byggingaverktakar á Akureyri hafi hlustað á fasteignasala og markaðinn almennt og byggt hagkvæmar eignir, ekki of stórar og dýrar.


Nýjast