„Með öllu óskiljanlegt"

Akureyrarflugvöllur. Mynd/Hörður Geirsson.
Akureyrarflugvöllur. Mynd/Hörður Geirsson.

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar lýsir yfir miklum vonbrigðum með tillögu að flugstefnu og samgönguáætlun til næstu 5 ára sem lagðar hafa verið fram af stjórnvöldum. Í samgönguáætluninni er ekki gert ráð fyrir neinu fjármagni til uppbyggingar á Akureyrarflugvelli næstu fimm árin. Í bókun bæjarstjórnar segir að miklum kröftum og fjármunum hefur verið varið til að byggja upp ferðaþjónustu, afþreyingu, hótel og innviði á Norðurlandi á síðustu árum.

„Ennfremur er markaðssetning heimamanna undanfarin ár farin að skila árangri með auknum áhuga erlendra flugrekenda. Þá hefur flestum flugtæknilegum hindrunum verið rutt úr vegi á Akureyrarflugvelli. Umferð millilandaflugs hefur verið að aukast síðustu misseri og áform um að sú umferð aukist enn frekar. Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun virðist vera nánast ógjörningur að fá samþykki fyrir stækkun flugstöðvarinnar þannig að hægt sé að taka með sómasamlegum hætti á móti þeim erlendu ferðamönnum sem hingað koma með flugi. Forsvarsmenn erlendra ferðaskrifstofa hafa bent á að þarna sé pottur brotinn sem geti haft veruleg áhrif á getu þeirra til að selja ferðir til Akureyrar.“

Flughlaðið enn óklárað

Þá er bent á það í bókuninni að í mörg ár hafi verið beðið eftir að flughlað Akureyrarflugvallar verði stækkað án þess að því verki hafi verið lokið. „Nú er búið að keyra umtalsverðu magni af efni í hlaðið en enn vantar að ljúka verkinu þannig að það geti nýst starfsemi á vellinum. Formaður öryggisnefndar atvinnuflugmanna hefur bent á að núverandi staða á flughlaðinu á Akureyrarflugvelli hamli raunverulega daglegum rekstri vallarins og lítið þurfi að bregða út af til þess að flugvöllurinn teppist vegna plássleysis. Þá er flughlaðið forsenda þess að hægt sé að byggja upp atvinnulóðir á flugvellinum, en fyrirtæki á svæðinu hafa viljað byggja allar götur síðan 2013.“

„Með öllu óskiljanlegt“

Bæjarstjórnin væntir þess að stjórnvöld gangi sem fyrst til verka og leggi til nægt fjármagn til þess að sú vinna sem hefur verið unnin og það fjármagn sem hefur nú þegar verið sett í uppbyggingu fari ekki í súginn heldur nýtist samfélaginu til heilla. „Ítrekað hefur komið fram hjá stjórnvöldum, ráðherrum og þingmönnum að nauðsynlegt sé að bregðast við ástandinu á Akureyrarflugvelli og því er með öllu óskiljanlegt að ekki skuli vera búið að fjármagna þessi verkefni,“ segir í bókun bæjarstjórnar.


Nýjast