Man ekki eftir öðrum eins vetri

Snjómoksturinn hefur sjaldan verið meiri á götum Akureyrar en í vetur.
Snjómoksturinn hefur sjaldan verið meiri á götum Akureyrar en í vetur.

„Það er mjög óvanalegt að svona mikill snjór sé viðvarandi í þetta langan tíma,“ segir Finnur Aðalbjörnsson verktaki á Akureyri. Finnur rekur samnefnt fyrirtæki sem hefur verið stórtækt í snjómokstri á Norðurlandi frá árinu 2003 en sjálfur hefur hann verið verktaki á eigin kennitölu frá árinu 1995. Hann er því eldri tvívetra þegar kemur að sjómokstri og segir veturinn hafa verið ansi erfiðan.

„Við höfum nánast unnið sleitulaust frá því í byrjun desember. Það voru tveir dagar í kringum jólin sem við fengum frá. Annars hefur þetta verið linnlaust.,“ segir Finnur. Spurður hvort hann muni eftir öðrum eins vetri segir Finnur: „Nei, ég man ekki eftir öðru eins í fljótu bragði. Ekki svona löngum kafla samfleytt í snjómokstri.“

Finnur er með 26 fasta starfsmenn og á milli 30-40 tæki til umráða. „Við höfum verið alveg rúmlega mannaðir undanfarnar vikur til að komast yfir þetta en ég fengið auka mannskap.“

Finnur Aðalbjörnsson

Orðnir þreyttir en ávallt til í að vinna

En hvernig er hljóðið í snjómokustursmönnunum eftir þessa löngu törn? „Menn eru orðnir mjög þreyttir. Það er ekkert launungarmál enda búið að vera gríðarlegt álag á starfsmönnum og nánast unnið allan sólarhringinn. En menn eru hins vegar alltaf til í að vinna. Það er aldrei vandamál og engin uppgjöf í okkur. En þegar það fer að líða á veturinn fara menn að lýjast með þessu áframhaldi.“

Ökumenn skilningsríkir upp til hópa

Snjómoksturstækin hafa verið óvenjumikið á götum bæjarins í vetur en Finnur segir bæjarbúa upp til hópa sýna þeim skilning. „Flestir eru mjög tillitssamir en svo eru svartir sauðir inn á milli sem hafa enga þolinmæði og troðast meðfram tækjunum þegar er verið að moka,“ segir Finnur Aðalbjörnsson.


Nýjast