Málefni aldraðra í Akureyrarbæ

Ingi Þór Ágústsson.
Ingi Þór Ágústsson.

Í síðustu viku birtist grein í Vikudegi eftir Helgu Erlingsdóttur, hjúkrunarforstjóra Öldrunarheimila Akureyrar (ÖA) og Anítu Magnúsdóttur, forstöðumanns Lögmannshlíðar, er fjallaði um aðkallandi þörf til að breyta og bæta aðstæður íbúa á öldrunarheimilinu Hlíð. Formaður bæjarráðs, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, svaraði fyrir hönd bæjarins í frétt sem birtist í Vikudegi 23. Febrúar s.l. 

Þar talaði formaðurinn í hring að mér fannst og starfsfólk  ÖA er enn og aftur skilið eftir í mikilli óvissu um sína framtíð og framtíð öldrunarmála á Akureyri.  Í þessari óvissu hefur starfsfólk ÖA verið meira og minna í, í tíð núverandi meirihluta í bæjarstjórn. Við vitum varla í dag hvar við verðum á næsta ári því jú eins og formaður bæjarráðs segir í téðri frétt þá er samningurinn við ríkisvaldið um rekstur ÖA út þetta ár.

Formaður bæjarráðs segir einnig í fréttinni að fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar geri ráð fyrir því að 350 milljónum verði ráðstafað til ÖA á árinum 2019 og 2020. Það er rétt en þeir fjármunir eru settir í rekstur bæjarins á ÖA og stór hluti af þeirri upphæð er reiknuð húsaleiga, líkt og gert er við allar fasteignir í eigu bæjarfélagsins.  Raun framlag bæjarins til ÖA er því mun lægri en kemur fram í fjárhagsáætluninni. 

Formaður bæjarráðs sagði einnig í fréttinni að sérstaklega sé horft til endurbóta á Hlíð í fjárhagsáætluninni en við lestur áætlunarinnar og framkvæmdaryfirlit Akureyrarbæjar fyrir árin 2018 – 2021 er ekki einu orði minnst á fyrirhugaðar endurbætur á Hlíð né neinni gerð af fyrirhuguðum byggingum á rýmum né endurbótum.  Þannig að formaður bæjarráðs er þarna að tala um eitthvað sem ekki er hægt að sjá að neinu leyti í framlögðum gögnum frá meirihluta bæjarstjórnar, hvorki tölum né í ræðu og ritum er birtust við kynningu hennar og tveimur umræðum í bæjarstjórn.

 Á meðan vinn ég ásamt mínu samstarfsfólki á heimili í Hlíð er heldur hvorki vatni né vindi, hlaupandi um með fötur og handklæði þegar rignir og reynum við okkar allra besta að halda raka og kulda frá okkar íbúum.  Þetta er ekki bjóðandi fólki sem hefur unnið fyrir samfélagið og á betra skilið af hálfu núverandi meirihluta.  Ekkert hefur verið gert undanfarin ár nema að setja plástra á sár sem enn blæða.  Þetta hefur ekkert að gera með rekstur ÖA heldur aðbúnað í húsnæði sem er í eigu bæjarins.

Það er vissulega rétt sem Guðmundur Baldvin segir að daggjöldin séu lág og að þau dugi ekki fyrir rekstrinum.  Það sem Guðmundur Baldvin segir ekki er að það er rétt rúmlega ár síðan að nýr samningur var undirritaður við sveitarfélögin um daggjöldin og í þeim samningi voru daggjöldin hækkuð lítillega en samt ekki nægilega mikið.  Það skref var samt tekið þá að allar lífeyrissjóðsskuldbindingar sveitarfélaga, er viðkemur öldrunarþjónustu, voru yfirteknar af ríkinu á næstu fimm árum.  Þar fór stór hluti fyrri ágreiningsefnis til ríkisins. Litið var á þann samning sem stórt fyrsta skref í átt að betri sátt um daggjöldin til framtíðar.  Það ætti að vera hlutverk kjörinna fulltrúa, tala nú ekki um fulltrúa sem hafa átt forsætisráðherra og nú ráðherra sveitarstjórnarmála og ég tala nú ekki um formann bæjarráðs, að tala nú fyrir aukinni þjónustu til handa öldruðum í þessu sveitarfélaginu – „getum við ekki öll verið sammála um það“?.

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar hefur um nokkurt skeið fjallað um rekstur ÖA á frekar neikvæðan hátt gagnvart þeim sem veita þessa þjónustu.  Það hafa verið gerðar kannanir, samantektir og skýrslur nú tvö ár í röð af hálfu KPMG um þróun, stöðu, framtíðarhorfur og rekstur ÖA.  Ein skýrsla birtist í janúar 2016 frá KPMG um öldrunarþjónustuna í bæjarfélaginu og þar var enn og aftur minnst á daggjöldin og rekstur ÖA og að laun hefðu hækkað án raun hækkunar daggjalda.  Enn var samið við KPMG um úttekt á rekstri ÖA og undirritun þess samnings var í byrjun árs 2017.  Úttektaraðilar hafa lokið gerð hennar en skýrsla verður ekki lögð fram en nokkrar milljónir voru settar á rekstur ÖA vegna hennar árið 2017. Bæjarstjórn og lykilaðilar fengu kynningu á niðurstöðum hennar.  Starfsfólk ÖA hefur ekki fengið að sjá neinar niðurstöður.  Það eina sem við fáum að heyra er að við séum svo dýr í rekstri og bæjarfélagið vill að ríkið komi meira að rekstrinum og/eða færa reksturinn á hendur annarra aðila eða bjóða hann út.

Líkt og Guðmundur Baldvin segir í fréttinni þá eru aldraðir í þessu sveitarfélagi bitbein á milli sveitarfélagsins sem þeir búa í og ríkisvaldsins.  Slíkt er óboðlegt öllum sem hér búa og þurfa á aukinni þjónustu að halda af hálfu sveitarfélagsins þar sem þeir eiga sitt líf.  Hvar er stefna sveitarfélagsins í málefnum aldraðra? Af hverju er ekki búið að fara yfir þessi mál á liðnu kjörtímabili líkt og umhverfisstefnu og íþróttastefnu? Eiga aldraðir í þessu sveitarfélagi ekki betra skilið en það að vera bitbein á milli tveggja turna og líða fyrir það á hverjum degi?  Veit formaður bæjarráðs hvernig staðan er í málefnum aldraðra í sveitarfélaginu er hann veitir forstöðu fyrir? Hefur hann talað við okkur sem vinnum daglega að því að veita þjónustu handa öldruðum í bæjarfélaginu? Okkur sem erum að brotna saman undan álagi og úrræðaleysi á hverjum degi. Vita yfirhöfuð bæjarfulltrúar hvernig staðan er í þessum málaflokki? Eða hafa þeir ekki áhuga á öldrunarmálum?

Staðan er bara mjög alvarleg og formaður bæjarráðs er í kjör aðstöðu til að ýta úr vari áætlun sem tekur strax á þeim brýna vanda sem tugir aldraðra búa við í dag í sveitarfélaginu.

Allir fulltrúar í bæjarstjórn eiga nú að taka sig saman í andlitinu og fara að huga að því hvernig þeir vilja hafa þessi mál í framtíðinni. Hvernig eiga málefni aldraðra að vera á næstu árum hér á Akureyri? Eiga aldraðir að þurfa mikið lengur að vera bitbein tveggja turna og blæða fyrir úrræðaleysi í þessum málaflokki næstu árin á meðan aðilar koma sér saman (eða ekki) um næstu skref?

Getum við ekki öll verið sammála um það að þeir sem hafa lagt allt sitt til sveitarfélagsins á liðnum árum eiga ekki skilið að vera settir í þá stöðu að vera að blæða fyrir aðgerðarleysi af hálfu stjórnenda bæjarins sem eiga að vera að vernda þá og sjá til þess að sú þjónusta sem þeir þurfa sé veitt.

Gerum betur, gerum miklu betur! 

 -Ingi Þór Ágústsson, forstöðumaður Austurhlíða hjá Öldrunarheimilum Akureyrarbæjar


Nýjast