„Má lengi bæta við meiri tónlist í lífið“

Tríó Akureyrar.
Tríó Akureyrar.

Tríó Akureyrar nefnist nýr tónlistarhópur sem býður upp á lifandi tónlistarflutning við hin ýmsu tækifæri. Tríóið er skipað þeim Erlu Dóru Vogler, Billa Halls og Valmari Väljaots. „Hvort sem leitað er eftir heilum tónleikum, tónlistarskemmtun á  árshátíð, flutningi nokkurra laga við giftingu, jarðarför eða skírn, huggulegri danstónlist eða lágstemmdum bakgrunnstónum undir borðhaldi þá hentar Tríó Akureyri,“ segir Erla Dóra.

„Það má lengi bæta við meiri tónlist í lífið - hvort sem er við hátíðleg tækifæri eða bara svona „dagligdags“ og þriggja manna hljómsveit er ágætis valkostur, þægileg og létt í meðförum.“ Erla segir tríóið spila allskonar tónlist. „Við leggjum þó aðal áherslu á ný og gömul dægurlög. Við erum með efni sem hentar sem dúnmjúkt stemningsvekjandi tónlistarteppi undir borðhaldi, sem hressandi milliliður á fundum, létt danstónlist á árshátíðum, sem eftirminnilegur ástarauki við brúðkaup... já, hvað sem er.“

Og þá er það kostur að tríóið er ekki háð rafmagni. „Ef Billi dregur fram kassagítarinn og Valmar mundar harmonikkuna getum við komið fram hvar sem er - úti á túni, inni í helli eða uppi á fjalli,“ segir Erla Dóra.

Fyrir þá sem vilja komast í samband við Tríóið er bent á Facebooksíðu þríeyksins undir heitinu Tríó Akureyrar.


Nýjast