Ljótu hálfvitarnir og GG blús á Græna hattinum

Ljótu hálfvitarnir skemmta á Græna hattinum um helgina.
Ljótu hálfvitarnir skemmta á Græna hattinum um helgina.

GG blús heldur tónleika á Græna hattinum í kvöld, fimmtudaginn 17. október. Segir um sveitina að hún sé rokkaður blúsdúett frá Álftanesi, mannaður reynsluboltum í bransanum. Guðmundur Jónsson (Sálin, Nykur, Vestanáttin) sér um gítar og söng og Guðmundur Gunnlaugsson (Kentár, Sixties, Jötunuxar) um trommur og söng. Tvímenningarnir hafa undanfarin misseri spilað sígrænar ábreiður hér og hvar við góðan orðstír. Þeir gáfu út sína fyrstu plötu, PUNCH, nýverið. Tónleikarnir hefjast kl. 22:00.

Á föstudaginn 18. okt. og laugardaginn 19. okt er hins vegar komið að Ljótu hálfvitunum sem halda tónleika bæði kvöldin. „Það að laufin falli af trjánum þykir nokkuð öruggt merki þess að það sé komið haust. Að Ljótu hálfvitarnir spili á Græna hattinum er hins vegar endanleg staðfesting á hausti,“ segir um tónleikana.

Þá segir ennfremur að Rúv muni mæta á svæðið og taka upp tónleikana og verða þeir síðar meir sýndir í sjónvarpi allra landsmanna ásamt meira efni sem enn er verið að vinna. „Við megum ekki tala of mikið um það í bili. Sú staðreynd að nú verði til söguleg heimild þar sem Græni hatturinn er leiksviðið er yfirþyrmandi og gullfalleg,“ segir í tilkynningu.


Nýjast