Líta þurfi alvarlegum augum á íbúaþróun

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á Akureyri segja að greina þurfi sveitarfélagið út frá samkeppni…
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á Akureyri segja að greina þurfi sveitarfélagið út frá samkeppnishæfni þess við önnur sveitarfélög.

Berglind Ósk Guðmundsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir að bæjaryfirvöld á Akureyri verði að líta á íbúaþróun í sveitarfélaginu mjög alvarlegum augum. Þar sé bærinn að missa af tækifærum. Á síðasta bæjarstjórnarfundi á Akureyri var umræða um samkeppnishæfni á atvinnumarkaði en Berglind Ósk hóf umræðuna. Reifaði hún nauðsyn þess að styrkja stöðu bæjarins á atvinnumarkaði og fjölga íbúum. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu í kjölfarið fram bókun þar sem óskað er eftir því að farið verði í vinnu við að gera samkeppnisgreiningu fyrir Akureyrarbæ til þess að nota til markaðssetningar á bænum, bæði á atvinnu- og íbúamarkaði.

Ráðast þarf í öfluga markaðssetningu

Berglind Ósk segir í samtali við Vikudag að bæjaryfirvöld þurfi að líta til þeirra þátta sem hafa áhrif á íbúa og þeirra sem líta til sveitarfélagsins sem búsetukost. „Hvar erum við að blómstra og hvar þurfum við að taka til? Það þarf að ráðast í öfluga markaðsetningu á þessum þáttum sem gera Akureyri að eftirsóknarverðum búsetukost,“  segir Berglind. Eins og fram hefur komið í blaðinu er hæg íbúafjölgun á Akureyri, Samkvæmt tölum úr Þjóðskrá Íslands var fjölgun í öllum landshlutum frá 1. desember 2017 til 1. október sl. nema á Norðurlandi eystra. Ef íbúafjölgun á Akureyri er skoðuð sérstaklega á milli áranna 2017 og 2018 þá fjölgaði bæjarbúum 92, eða 0,5% sem er töluvert undir landsmeðaltalinu.

Berglind Ósk Guðmundsdóttir

Segir álögur í hæstu hæðum

Berglind Ósk segir að áður en ráðist verður í öfluga markaðssetningu þurfi að greina sveitarfélagið út frá samkeppnishæfni þess við önnur sveitarfélög. „Greina þarf m.a. skilvirkni opinbera kerfisins og skilvirkni atvinnulífisins, bera saman álögur sveitarfélagsins við önnur og hafa þessar upplýsingar sýnilegar þeim sem eftir þeim óska, t.d. á heimasíðu sveitarfélagsins.“ Berglind segir ennfremur að í sveitarfélaginu séu álögur í hæstu hæðum en gert er ráð fyrir því í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árin 2019-2022 að fasteignamat hækki annað árið í röð. „Það þýðir einfaldlega að með óbreyttri álagningu þá hækkar fasteignaskattur á heimili og fyrirtæki. Það er alveg ljóst að fyrirtæki og fjölskyldur líta til þessa þátta í þjónustu sveitarfélagsins og að þessar staðreyndir hafi neikvæð áhrif á val fólks um búsetu hér,“ segir Berglind Ósk.

 


Nýjast