Laun verkafólks er ekki stóra vandamálið

Björn Snæbjörnsson.
Björn Snæbjörnsson.

Skattkerfið gegnir lykilhlutverki í að draga úr ójöfnuði, þess vegna er ein helsta krafa verkalýðshreyfingarinnar í yfirstandandi kjaraviðræðum að breyta skattkerfinu. Útreikningar Alþýðusambands Íslands sýna svart á hvítu að skattbyrði launafólks hefur á undanförnum árum bitnað harðast á tekjulægri hópum samfélagsins. Könnun sem Gallup gerði fyrir Einingu-Iðju í lok síðasta árs sýnir að 80% félagsmanna telja að launamunur hafi aukist á síðustu fimm árum.

Vissulega er það hlutverk launþegasamtakanna og vinnuveitenda að semja um kaup og kjör, hins vegar hefur aðkoma ríkis og sveitarfélaga iðulega haft verulega þýðingu og jafnvel úrslitaáhrif.

Fjármálaráðherra kynnti um miðjan mánuðinn mögulega aðkomu stjórnvalda. Verkalýðshreyfingin batt miklar vonir við að tillögurnar gætu liðkað til í kjaraviðræðunum. Þær vonir urðu hins vegar að engu.

Eftir stendur, að verkalýðshreyfingin er staðráðin í því að ná fram þeim kjarabótum að launafólk geti lifað af launum sínum. Síðustu árin hafa leikið láglauna- og millitekjufólk grátt.

Útspil ríkisstjórnarinnar mikil vonbrigði

Skattatillögur verkalýðshreyfingarinnar gera ráð fyrir því að staða 95% launafólks batni. Með fjögurra þrepa kerfi verði hægt að hækka skattleysismörk og draga úr jaðarsköttum hinna tekjulægri.

Fjármálaráðherra kynnti hins vegar tillögu um þriggja þrepa skattkerfi og skattalækkun upp allan stigann. Tillögur ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir frystingu persónuafsláttar í nokkur ár.

Verkalýðshreyfingin vill að barnabótakerfið verði eflt til muna, þannig að það styðji við meginþorra barnafjölskyldna en ekki aðeins allra tekjulægstu eins og staðan er í dag. Vaxta- og barnabótakerfin verði efld, enda hafa þau veikst mikið á undanförnum árum, sem hefur eðlilega bitnað harðast á þeim tekjulægstu.

Ríkisstjórnin fellst ekki á þessar eðlilegu og sjálfsögðu tillögur.

Verkalýðshreyfingin vill hátekjuskatt, hækka auðlindagjald og fjármagnstekjuskatt. Ríkisstjórnin fellst heldur ekki á þessar tillögur verkalýðshreyfingarinnar til þess að auka jöfnuð í samfélaginu.

Segja má að skattalækkunin sem ríkisstjórnin leggur til, dugi varla fyrir einni ferð í Bónus, auk þess sem sú lækkun á að koma einhvern tímann á næstu þremur árum.

Tillögur ríkisstjórnarinnar í skattamálum eru því mikil vonbrigði. Vissulega má finna jákvæða punkta í tillögunum, en þær tillögur vega ekki þungt í heildar samhenginu.

Öllum brögðum beitt til að rjúfa samstöðuna

Vinnuveitendur segja alls ekki hægt að fallast á sanngjarna kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar. Það er því himinn og haf sem skilur á milli deiluaðila. 

Í fyrrgreindri könnun sem Gallup gerði fyrir Einingu-Iðju var meðal annars spurt um mögulegar verkfallsaðgerðir. Skemmst er frá því að segja að mikill meirihluti félagsmanna er tilbúinn til að fara í verkfallsaðgerðir og knýja þannig á um bætt kjör.

Verkafólki er misboðið eftir útspil ríkisstjórnarinnar og róðurinn þyngist því gagnvart vinnuveitendum sem beita öllum tiltækum brögðum til að rjúfa samstöðu verkafólks, rétt eins og í fyrri kjaraviðræðum. Öllu er snúið á hvolf, öllum brögðum verður beitt.

Næstu vikurnar reynir því sannarlega á samstöðuna í ólgusjó kjaraviðræðnanna.

Kröfur okkar eru sanngjarnar, enda erum við ekki að fara fram á sambærilegar hækkanir og bankastjórar og annað sjálftökufólk.

Laun verkafólks er ekki stóra vandamálið í þjóðfélaginu.

Því fer fjarri.

Höfundur er formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambands Íslands.

 


Nýjast