LA fékk tvær tilnefningar

Úr sýningunni Núnó og Júnía.
Úr sýningunni Núnó og Júnía.

Tvær uppsetningar Leikfélags Akureyrar hafa verið tilnefndar til verðlauna sem leiksýning ársins 2017 á Sögum, verðlaunahátíð barnanna. Frá þessu er greint á heimasíðu Menningarfélags Akureyrar. Þetta eru leikritin Núnó og Júnía og Stúfur. Leiksýningin Núnó og Júnía fékk eindæma góðar viðtökur og hlaut m.a. lof fyrir að taka á áleitnum spurningum sem leita á ungmenni og börn í flóknum nútímanum – og framtíðinni.

Þær Sigrún Huld Skúladóttir og Sara Martí Guðmundsdóttir skrifuðu verkið fyrir Leikfélag Akureyrar, auk þess sem Sara Martí leikstýrði uppsetningunni, sem var 322. sviðsetning leikfélagsins. Stúfur sneri aftur í Samkomuhúsið fyrir síðustu jól með sýninguna Stúfur snýr aftur og vakti mikla lukku.

Verðlaunahátíðin fer fram 22. apríl og geta öll börn á aldrinum 6-12 ára tekið þátt í að velja verðlaunahafa með því að kjósa á vef KrakkaRÚV.


Nýjast