Krefjast tafarlausra úrbóta við Hörgárbraut

Hörgárbraut.
Hörgárbraut.

Íbúafundur fyrir íbúa Holta- og Hlíðahverfis á Akureyri var haldinn í Glerárskóla í gærkvöld en fundinn sóttu 24 íbúar. Umræðuefnið var slysahætta á þjóðvegi 1 um Hörgárbraut. Tíð slys hafa verið á fólki á götunni undanfarin ár og var nýlega keyrt á 7 ára stúlku.

Á fundinum var birt ályktun þar sem krafist er tafarlausra aðgerða af hálfu bæjaryfirvalda á Akureyri og Vegagerðarinnar við götuna.

„Á þjóðvegi 1 um Hörgárbraut, milli Undirhlíðar og Borgarbrautar hafa orðið allt of mörg umferðaróhöpp og alvarleg slys á óvörðum vegfarendum. Við sem sóttum íbúafund í Glerárskóla 18. febrúar skorum á alla ökumenn að fara varlega á þessu svæði í ljósi hárrar slysatíðni.

Á sama tíma skorum við á Akureyrarbæ og Vegagerðina að grípa til aðgerða tafarlaust til að auka öryggi vegfarenda á þjóðvegi 1 um Hörgárbraut. Við leggjum til að tafarlaust verði ráðist í merkingaátak um hámarkshraða og umferð skólabarna.

Við óskum eftir því að gangbraut yfir Hörgárbraut norðan Glerárbrúar verði lokað og hún fjarlægð eins fljótt og hægt er að beina gangandi umferð örugga leið, til dæmis með undirgöngum undir Hörgárbraut eða göngubrú.

Spyrjum hvers vegna ekki hefur verið ráðist í undirgöng á kaflanum milli Undirhlíðar og Borgarbrautar eins og gert er ráð fyrir í deiliskipulagi sem samþykkt var af Skipulagsnefnd Akureyrar þann 9. júní 2010 og óskum þess að fá skýringar á því án tafar," segir í ályktuninni, sem er sérstaklega beint bæjarfulltrúa hjá Akureyrarbæ auk fulltrúa Vegagerðarinnar.


Nýjast