Kennarar uggandi vegna stöðu erlendra skólabarna á Akureyri

Mynd úr safni og tengist fréttinni ekki beint.
Mynd úr safni og tengist fréttinni ekki beint.

Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari á Akureyri og varaformaður BKNE, segir Akureyrarbæ hafa brugðist útlenskum börnum sem hingað hafi komið er varðar skólagöngu. Undir það taka fleiri kennarar á Akureyri. 

Í aðsendri grein sem Helga Dögg skrifar í Vikudag sem kom út í gær segir hún að erlendir nemendur á Akureyri fái ekki nægilega aðstoð og það sé skortur á fjármagni frá bæjaryfirvöldum til að hlúa að börnunum.

„Það er sárt að horfa upp á vanlíðan í andliti og líkamsmáli útlendra nemenda sem eru í þessari stöðu. Grunnskólakennari sem fær útlenskan nemanda í bekk fær hvorki aukinn undirbúningstíma eða kennsluafslátt til að undirbúa og hanna námsefni fyrir nemandann,“ skrifar Helga Dögg meðal annars í greininni.

Helga Dögg Sverrisdóttir

Bærinn áhugalaus um málið

Í samtali við Vikudag segir Helga Dögg að Akureyrarbær sýni málaflokknum engan áhuga og að kennarar á Akureyri séu uggandi vegna stöð unnar. „Kennarar töldu að þegar þeir fengju flóttabörn til sín í kennslu fylgdi því aukinn stuðningur en svo hafa hlutirnir ekki verið hugsaðir til enda,“ segir Helga Dögg, sem starfar sem kennari í Síðuskóla. 

„Það komu fjögur útlensk börn inn í skólann í haust en það er ekki stuðningur með neinu þeirra. Þetta þyngir allt starfið fyrir kennara.“ Helga Dögg segir að í rauninni þurfi að koma starfsmaður inn með barninu til aðstoðar. „Kennari með kannski 18 börn í bekk hefur ekki tíma til að setjast niður með erlendu barni og útskýra með táknmáli eða teikningum hvað sé um að vera. Þegar erlend börn koma og hafa enga íslenskukunnáttu og stundum enga enskukunnáttu, þá sitja þau bara sem eitt stórt spurningarmerki í kennslutímum dag eftir dag. Það verður að segjast eins og er að staðan í þessum málum hjá Akureyrarbæ er mjög slæm og áhyggjuefni,“ segir Helga Dögg.

Vantar leiðir og úrræði í sumum tilfellum

Karl Frímannsson, fræðslustjóri á Akureyri, segir spurður um málið að Akureyrarbær fjármagni skólakerfið með fínum hætti. Ekki megi gleyma því að ef litið er til Akureyrar sem og alls landsins þá erum við með best mönnðu grunnskóla innan OECD.

Karl Frímannsson

„En ég neita því ekki að það geta verið tilvik þar sem er ákveðið bjargarleysi og vantar bæði leiðir og úrræði til að takast á við þarfir þessara barna. Ég held að með t.d. eldri flóttabörnin þá höfum við lært af þeirri reynslu og myndum nálgast hluta þess verkefnis með öðrum hætti.“ Karl bendir á að mörg skólabörn sem komu til bæjarins sem flóttamenn séu á fínu róli.

„En í einhverjum tilvikum er það ekki og þá þurfum að skoða hvað hægt sé að gera betur. Þessi börn hafa hins vegar fengið mikla aðstoð en svo er misjafnt hvernig aðstoðin nýtist og hvernig framfarirnar verða,“ segir Karl.


Nýjast