Starfsfólk Kalda styrkir Krabbameinsfélagið um tæplega tvær milljónir

Starfsfólk Kalda og fulltrúar Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis við afhendingu á peningagjöfi…
Starfsfólk Kalda og fulltrúar Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis við afhendingu á peningagjöfinni.

Starfsfólk Bruggsmiðjunnar Kalda á Ársskógssandi afhendu nýverið Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis gjöf að upphæð 1.800.000 kr. Í marsmánuði kom upp sú umræða meðal starfsfólks að láta gott af sér leiða og kom þá fljótlega upp sú hugmynd að brugga léttöl, nefna það VERTU KALDUR og gefa allan ágóða af þeirri sölu til Krabbameinsfélagsins.

„Við fórum strax í þá vinnu að hafa samband við fjölmarga aðila uppá umbúðir, hönnun og  prentun á miðum, flutning og fleira, fengum alls staðar mjög jákvæð viðbrögð og voru allir tilbúnir að leggja þessu góða málefni lið,“ segir Agnes Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Kalda í samtali við Vikudag. „Fyrst ber að nefna Bruggsmiðjuna Kalda sem gaf allt hráefnið í léttölið, starfsfólkið gaf vinnuna og án þeirra hefði þetta verkefni ekki getað orðið að veruleika.“

Þá gaf Þormóður Aðalbjörnsson hönnun á miðunum, Ásprent á Akureyri gaf alla miða, Oddi og Samhentir gáfu umbúðir, Saga Medica gaf hvönnina sem notuð er í léttölið, Samskip gaf allan flutning á léttölinu og Bros gaf boli með lógóinu VERTU KALDUR.

Þá segir Agnes ennfremur að síðast en ekki síst þá hafi fjölmargir styrkt verkefnið með kaupum á léttölinu og með beinum fjárstyrkjum og vegna þeirra tókst að safna svo veglegri upphæð.


Nýjast