KA einum sigri frá úrvalsdeildarsæti

Tekst KA-mönnum að tryggja sér sæti í úrvalsdeildinni á fimmtudagskvöldið? Mynd/Þórir Tryggvason.
Tekst KA-mönnum að tryggja sér sæti í úrvalsdeildinni á fimmtudagskvöldið? Mynd/Þórir Tryggvason.

KA er komið í lykilstöðu í einvígi sínu gegn HK um laust sæti í Olís deild karla í handbolta eftir 20-25 sigur í öðrum leik liðanna í Digranesi í gær. KA leiðir því einvígið 2-0 og þarf aðeins einn sigur í viðbót til að tryggja sæti í deild þeirra bestu að ári. Liðin mætast einmitt í KA-heimilinu annað kvöld, fimmtudag kl. 19:00 í þriðja leik liðanna og þar geta Norðanmenn tryggt sæti í deild þeirra bestu næsta vetur.

Í leik liðanna í gær var Sigþór Gunnar Jónsson markahæstur í liði KA með fimm mörk, Andri Snær Stefánsson og Dagur Gautason skoruðu fjögur mörk, Sigþór Árni Heimisson og Ólafur Jóhann Magnússon þrjú mörk, Heimir Örn Árnason og Jón Heiðar Sigurðsson tvö mörk og þeir Áki Egilsnes og Einar Birgir Stefánsson skoruðu eitt mark hvor. Jovan Kukobat varði 18 skot í marki KA.


Nýjast