Ísland allt og mikilvægi Eyjafjarðarsvæðisins

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

„Ísland allt“ er áætlun Miðflokksins um að gera landið að einni samvirkandi heild með stórsókn í byggðamálum. Liður í því er að Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið verði í auknum mæli mótvægi við höfuðborgarsvæðið.

Áætlunin byggir á loforði sem ég og fyrrverandi ríkisstjórn gáfum um að þegar við værum búin að ná þeim árangri sem við boðuðum í efnahagsmálum myndum við skila árangrinum áfram til íslensks almennings og fjárfesta í framtíðinni. Mikilvægur liður í því var boðuð stórsókn í byggðamálum. Hún er bæði nauðsynleg og aðkallandi. Ef ekki verður gripið inn í núna verður sífellt erfiðara og dýrara að snúa öfugþróun við og sækja fram. Ef við hins vegar nýtum það stóra tækifæri sem nú gefst og ráðumst í umfangsmiklar fjárfestingar samkvæmt heildaráætlun fyrir landið mun sú auðlind sem liggur í landinu og fólkinu sem það byggir nýtast betur en nokkru sinni áður. Við munum fara úr dýrri vörn í arðbæra sókn.

Við höfum leitað fyrirmynda víða, og metið hvað hefur reynst best, meðal annars í Bretlandi þar sem stjórnvöld réðust fyrir nokkrum árum í verkefnið Northern Powerhouse. Þar í landi komust stjórnvöld að þeirri niðurstöðu að sú skekkja sem stöðugt ágerðist milli höfuðborgarsvæðisins (London) og Norður-Englands kallaði á umfangsmikil inngrip af hálfu stjórnvalda. Fyrir vikið hefur fjárfestingu verið beint norður, sérstök áhersla verði lögð á að efla heilbrigðis- og menntakerfið á Norður-Englandi, framlög til menningarmála aukin, sérstakir styrkir veittir til rannsókna og þróunarstarfs og svo framvegis.

Í breska verkefninu gegndi þéttbýlið og sveitin á milli Liverpool og Manchester sérstöku hlutverki sem mótvægi við Lundúnasvæðið. Á sama hátt munu Akureyri og Eyjafjörður gegna mikilvægu hlutverki í áformum okkar.

Ísland allt lítur til þess sem vel hefur gefist annars staðar en einnig til aðstæðna á Íslandi og bætir inn lausnum sem henta sérstaklega hér á landi. Það mætti því kalla það íslensku leiðina, þetta er leið sem er sérstaklega til þess hönnuð að skila árangri á Íslandi.

Ástæður þess að ég er sannfærður um að verkefnið muni gefast vel liggja annars vegar í þeim fjölmörgu aðgerðum sem ráðist verður í um allt land og eiga að virka saman sem ein heild og í því hvernig staðið verður að framkvæmdinni.

Verkefninu verður stýrt frá einum stað, helst úr forsætisráðuneytinu, af ráðherra sem mun ásamt ríkisstjórninni hafa heildaryfirsýn, vald til að stýra framkvæmdinni allri og fyrir vikið bera ábyrgð á því að árangur náist. Horfið verður frá smáskammtalækningum og því að láta landshluta takast á um sömu fjárveitingarnar. Tugum milljarða verður varið í verkefnið á næstu árum og hver króna nýtt með þeim hætti að hún gagnist heildarplaninu um að gera landið að einni heild. Rétt eins og í Bretlandi munu stjórnvöld hafa samráð við sveitarfélög, landshlutasamtök, stofnanir, fyrirtæki, samtök á vinnumarkaði, ráðgjafafyrirtæki ofl. og fá alla til að vinna saman að heildarmarkmiðinu.

Verkefnin verða fjölþætt en öll til þess ætluð að ná sama markmiðinu. Enda þarf margt að fara saman svo byggð sé efld um allt land og tækifæri Íslands nýtt. Saman munu fara hlutir eins og sérstök efling heilbrigðisþjónustu og menntakerfis, tengingar með framkvæmdum á sviði samgöngumála og fjarskipta, fjárfesting ríkis og einkaaðila, fjölgun opinberra starfa, flugsamgöngur, bæði niðurgreiðsla þeirra (sem almenningssamgangna) og uppbygging innviða, skattlegir hvatar og ákvörðun um að allir landsmenn skuli eiga rétt á tiltekinni þjónustu af hálfu ríkisins.

Allt eru þetta liðir sem munu spila saman og verða til þess að Ísland allt fari að virka sem ein heild.

Til þess að þessi framtíðarsýn verði að veruleika þarf stjórnmálaafl sem hefur vilja og getu til að ryðjast í gegn um þær hindranir sem á veginum verða. Miðflokkurinn er það afl. Komdu með okkur í verkefnið með því að setja X við M á kjördag.

-Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins skipar 1. sæti Miðflokksins í Norðausturkjördæmi


Nýjast