Innsýn í líf og starf hjúkrunarfræðinga á gjörgæsludeild

Guðrún Una Jónsdóttir og Hrafnhildur Jónsdóttir.
Guðrún Una Jónsdóttir og Hrafnhildur Jónsdóttir.

Í tilefni af nýstofnuðu félagi hjúkrunarfræðinga í Eyjafirði mun Vikudagur á næstu vikum og mánuðum birta greinar eftir hjúkrunarfræðinga á Akureyri nágrenni þar sem þeir kynna sín störf. Guðrún Una Jónsdóttir og Hrafnhildur Jónsdóttir á gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri ríða á vaðið.

Við heitum Hrafnhildur Jónsdóttir og Guðrún Una Jónsdóttir og erum hjúkrunarfræðingar og vinnum á gjörgæsludeild sjúkrahússins á Akureyri. Við útskrifuðumst báðar úr Háskólanum á Akureyri, Hrafnhildur árið 2008 en Guðrún var í fyrsta útskriftahópnum árið 1991. Báðar höfum við lokið sérnámi í gjörgæsluhjúkrun, Guðrún frá Rikshospitalet í Osló 2002 og Hrafnhildur frá HÍ 2017 en hún er einnig lærður sjúkraliði. Við höfum unnið á gjörgæsludeild SAk í töluverðan tíma, Guðrún frá 1993 og Hrafnhildur frá 1999 með smá hléum þó í tengslum við barneignir og nám.

Að vinna sem hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild felur í sér margar áskoranir. Verkefnin eru margþætt og sjúklingahópurinn breiður.

Gjörgæslan tekur á móti bæði börnum og fullorðnum. Þetta eru mikið veikir einstaklingar sem leggjast inn t.d eftir stórar aðgerðir, koma vegna alvarlegrar truflunar á hjarta-,lungna- og/eða nýrnastarfsemi og þurfa aðstoð frá tækjum eins og öndunarvél og gjörgæslublóðskilunarvél (prisma). Einnig fáum við til okkar eintaklinga sem eru með miklar blæðingar, eru með blóðsýkingu (sýklasótt) og sýklasóttarlost, einstaklinga sem leggjast inn til eftirlits vegna lyfjaeitrunar og ofskammts fíkniefna, einstaklinga sem lent hafa í hjartastoppi og þurfa öndunarvélameðferð og kælingu. Þá fáum við til okkar einstaklinga sem fá heilablóðfall af völdum blóðtappa og fá þar til gert lyf í æð til að leysa hann upp. Þá tökum við á móti einstaklingum sem lent hafa í alvarlegum slysum, þeir leggjast ýmist inn hjá okkur eða eru fluttir suður og þá undurbúum við þá fyrir sjúkraflugið.

Skjólstæðingar okkar eru tengdir við tæki og tól sem krefjast mikillar þekkingar og eftirlits. Stöðugt er fylgst með blóðþrýstingi, hjartslætti, súrefnismettun, hita og þvagútskilnaði. Tekin eru blóðgös þ.s fylgst er með súrefni og koltvísýringi í blóði og niðurstöður annarra blóðprufa skoðaðar og metnar.

Hjúkrun mikið veikra sjúklinga felur einnig í sér flóknar lyfjagjafir sem ekki eru hættulausar, ýmist í stökum lyfjagjöfum eða í lyfjadreypum og krefjast oft á tíðum mikils eftirlits. Sem dæmi um þetta má nefna æðaherpandi lyf sem halda blóðþrýstingi uppi,lyf gefin við hjartsláttaróreglu og insúlíndreypi.

Þó svo sjúklingurinn okkar sé alltaf miðdepill hjúkrunarinnar felst starf okkar einnig í að sinna aðstandendum hans. Á gjörgæslu fá aðstandendur að dvelja hjá sínum nánustu allan sólarhringinn sé þess óskað. Umönnun aðstandenda felst í að veita upplýsingar um sjúkling og meðferð hans og veita stuðning. Fjölskyldufundir eru haldnir reglulega með aðstandendum og hjúkrunarfræðingi og læknum sjúklings. Við búum til fjölskyldutré og tengslanet til að fá betri yfirsýn yfir fjölskylduaðstæður.

Samstarf við aðrar starfsstéttir deildarinnar og spítalans er mikið, má þar nefna lækna, aðra hjúkrunarfræðinga,sjúkraliða, sjúkraþjálfara, meinafræðinga, geislafræðinga og sjúkrahúsprest. Starfið okkar felur líka í sér stjórnun m.a sem vaktstjórar og kennslu t.d til hjúkrunarnema í verknámi og nýs starfsfólks sem er í aðlögun. Þá gefst okkur kostur á að starfa í ýmsum nefndum innan deildarinnar og sjúkrahússins.

Þær stöllur eru sammála um að það sem gerir starfið spennandi er að enginn dagur er eins og þegar þær mæta á vaktina vita þær sjaldnast hvað hún ber í skauti sér. Vinnufélagarnir eru metnaðarfullir og klárir og starfsandi oftast góður. Þú mætir í vinnuna og þarft að vera viðbúinn öllu.
Auðvitað eru rólegir tímar inná milli og þá er gott að nota til að spjalla saman og viðra hluti. En starfið er ekki alltaf sól og sæla. Skortur á hjúkrunarfræðingum inná sjúkrahúsum er staðreynd og á líklega eftir að aukast. Ástæðuna teljum við vera lág laun, vaktavinnu og mikið álag.

Það koma vaktir þ.s ekki gefst tími til að borða,drekka eða skreppa á snyrtingu. Laun eru í engu samræmi við ábyrgð og menntun. Hjúkrunarnámið er í dag fjögurra ára háskólanám og margar af okkur hafa bætt við sig sérnámi t.d í gjörgæsluhjúkrun. Við vinnum aðra til þriðju hverju helgi og þurfum að skila okkar vöktum á rauðum dögum s.s yfir jól, páska og hvítasunnu. Við breytum víst ekki vaktavinnutímanum en vonandi verður hægt að bæta laun og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga smá saman. Stytting vinnuviku gæti verið góður kostur eins og þekkist á Norðurlöndunum en þar er full vinna vaktavinnufólks á spítölum 35,5 klst í stað 40 klst.

Við elskum hins vegar starfið okkar og það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn á framtíðina. Ef tekst að bæta laun og starfsumhverfi stéttarinnar okkar og gera starfið eftirsóknarverðara eru góðar líkur á að hægt verði að manna hjúkrunarstöður í samræmi við álag á stofnunum. Einnig þyrfti að jafna kynjahlutfallið en í dag eru einungis fá prósent karlmanna sem vinna við hjúkrun.
Við hvetjum þá sem stefna á háskólanám að velja hjúkrun og gera hana að ævistarfi.

Hjúkrunarfræðingar eru mjög eftirsóttur starfskraftur hvar sem er í heiminum og möguleikarnir eru endalausir. Þú getur unnið á heilbrigðisstofnunum eins og sjúkrahúsi, heilsugæslu og öldrunarheimilum. Þú getur líka unnið sem skólahjúkrunarfræðingur, starfað í heimahjúkrun og heimahlynningu eða kennt hjúkrun í Háskólanum svo eitthvað sé nefnt. Starfið er alþjóðlegt eins og fyrr segir og margir hjúkrunarfræðingar velja að ferðast til fjarlægra landa og vinna þar m.a við hjálparstörf.

Takk fyrir okkur, Guðrún Una Jónsdóttir og Hrafnhildur Jónsdóttir.

 


Nýjast