Íhuga að setja skorður á lausagöngu katta

Mynd/Hörður Geirsson
Mynd/Hörður Geirsson

Umhverfis- og mannvirkjaráð hefur samþykkt að taka til endurskoðunar samþykktir um hunda- og kattahald í Akureyrarbæ með það að markmiði meðal annars að setja skorður við lausagöngu katta. Jafnframt verði gerð tillaga að aðgerðaáætlun ásamt kostnaðargreiningu.

Í viðtalstíma bæjafulltrúa í lok mars var óskað eftir því að reglur um lausagöngu katta í bænum yrðu hertar og m.a. sagt að fuglalíf í innbænum sé undir miklu álagi af völdum kattanna.

Jón Birgir Gunnlaugsson, verkefnastjóri umhverfismála hjá Akureyrarbæ, segir að umræður um lausagöngur katta séu alltaf háværar á varptíma. „Okkur var falið að koma með tillögur og eflaust verður rætt hvort banna eigi lausagöngu katta á varptíma,“ segir Jón Birgir.

Í Grímsey og Hrísey gilda strangari reglu um kattahald en á Akureyri. Þannig er lausaganga katta bönnuð í Hrísey og í Grímsey er kattahald alfarið bannað. Í reglugerð um kattahald segir m.a. að, „eigendur og umráðamenn katta skulu gæta þess vel, að kettir þeirra valdi ekki hættu, óþægindum, óþrifnaði eða raski ró manna.“


Nýjast