Íhuga að leita réttar síns gagnvart Akureyrarbæ

Hér má sjá mynd af fyrirhuguðu brúarstæði yfir Eyjafjarðará.
Hér má sjá mynd af fyrirhuguðu brúarstæði yfir Eyjafjarðará.

Hestamannafélagið Léttir íhugar að leita réttar síns gagnvart Akureyrarbæ. Málið varðar nýja brú yfir Eyjafjarðará sem átti að reisa í haust en hefur verið frestað. Nýja brúin er í aðalskipulagi Akureyrarbæjar og er kostnaður við hana áætlaður um 150 milljónir króna. Vegna uppsetningu við aðflugsbúnað við Akureyrarflugvöll þarf að breyta reiðleið sem liggur frá Akureyri yfir Eyjafjarðará yfir í Eyjafjarðarsveit. Búið er að loka gömlu brúnni en fyrirhugað var að byggja nýja brú nú í haust og vetur til að leysa þá gömlu af hólmi. Forsvarsmenn Léttis funduðu með bæjaryfirvöldum á Akureyri um málið í gær.

Sigfús Ólafur Helgason, framkvæmdastjóri Léttis, segir að á fundinum hafi komið skýrt fram að bæjaryfirvöld ætli sér ekki að byggja nýja brú þrátt fyrir að s.l 12 mánuði hafi allar áætlanir og vinna verið í góðri sátt milli hestamanna og bæjarins um að brúin kæmi nú á haustdögum.

„Það er engin lausn í sjónmáli. Vandi okkar hestamanna er staðreynd. Við erum lokaðir af. Komumst ekki til austurs og ekki fram í Eyjafjörð,“ segir Sigfús og bendir á að hestamaenn hafi m.a komið að hönnun brúarinnar. Mikil vinna liggi því að baki. „En Akureyrarbær hefur algjörlega skipt um skoðun nú þegar búið er að loka reiðleiðinni. Bærinn vill ekki fara í þetta verkefni og vísar ábyrgðinni á aðra,“ segir Sigfús og nefnir í því samhengi Vegagerðina og Isavia.

„Kemur gjörsamlega aftan að okkur“

„Þessi breytta afstaða Akureyrarbæjar kemur svo gjörsamlega aftan að okkur hestamönnum og það eru gríðarleg vonbrigði að upplifa að öll sú vinna og samstarf um verkefnið sé að engu orðið. Því miður.“ Sigfús segir að næstu skref hestamannafélagsins sé að leita réttar síns.

„Við stöndum einfaldlega frammi fyrir þeim beiska kaleik að við þurfum að kanna réttarstöðu okkar. Við teljum að Akureyrabær geti ekki lokað leiðinni nema að önnur verði opnuð í staðinn. Um þetta er skýrt ákvæði í náttúruverndarlögum og við höfum unnið samkvæmt því með bæjaryfirvöldum í góðri trú.  Eins og staðan er núna blasir ekkert annað við en að leita að réttar okkar í málinu.“

Sigfús bendir á að talsverð umferð sé um stígana, bæði gangandi vegfarenda og hesta, því leiðin sé eina reiðleiðin frá Akureyri yfir Eyjafjarðará og sé þjóðleið hestamanna milli landshluta.  Svæðið sé einnig útivistarsvæði fyrir bæði Akureyringa og íbúa Eyjafjarðarsveitar.

 

 


Nýjast