Í tilefni af Hollandsflugi: Notum beina flugið

Oddur Helgi Halldórsson, umvafinn túlípönum í Hollandi.
Oddur Helgi Halldórsson, umvafinn túlípönum í Hollandi.

Þegar við Norðlendingar förum út í heim, eru það venjulegast tveir leggir. Annars vegar Akureyri-Keflavík,sem er langur og tímafrekur og yfirleitt þarf að gista fyrir eða eftir flug, eða bæði.  Hinn leggurinn er frá Keflavík til ca.  60 áfangastaðir í Evrópu og 20 vestan hafs.  Þú kemst á áfangastað á tveimur dögum.

Nú gefst okkur kostur á að fara í tveimur leggjum á miklu fleiri staði, á einum degi. Fyrri leggurinn er þá Akureyri- Rotterdam. Hægt er að keyra þaðan eða taka lest til helstu áfangastaða Evrópu. Einnig er hægt að fljúga þaðan til ca 40 áfangastaða, m.a. Tenerife. Það er innan við klukkutímaferð, með lest til Schiphol flugvallar, þaðan sem áfangastaðirnir skipta hundruðum.

Holland er gósen land hjólreiðarmannsins og fyrir ykkur sem ekki hafið hjólað erlendis er þetta frábær byrjunarpunktur. Landið er alsett mjög vel merktum hjólaleiðum við allra hæfi. Hægt er að velja langar og stuttar dagleiðir . Í Hollandi er mjög gott leiðarkerfi sem heitir Fietsknooppunkt. Það er nokkurs konar hnitakerfi, þar sem þú velur á milli hvaða punkta þú hjólar. Þú velur leið og vegalengd eftir eigin ósk. Til er app bæði fyrir Iphone og Android.  Það er mjög auðvelt í notkun. Leiðirnar eru mjög vel merktar og þú hjólar á milli punkta án vandkvæða. Holland er lítið, þéttbýlt, blómskrúðugt og fallegt land. Það er hrein og tær upplifun að hjóla um landið.

Ef ykkur hefur dreymt um að fara hjólaferð til útlanda er Holland frábær byrjun.

Þeir sem hafa prófað beint flug frá og til Akureyrar vita að það er algjör lúxus að vera kominn heim, nokkrum mínútum eftir lendingu. Með beinu flugi til Rotterdam er verið að opna allan heiminn fyrir okkur. Ég skora á Norðlendinga að hugsa út í þennan valkost og nýta sér, því það er líka undir okkur komið að halda beinu flugi gangandi. Ef vel gengur á þetta bara eftir að aukast og ferðum og möguleikum að fjölga.

-Oddur Helgi Halldórsson, höfundur er  áhugamaður um beint millilandaflug frá Akureyri.

 


Nýjast