Hvað skyldi Örn Ingi eftir sig?

Örn Ingi var sjálfmenntaður og ósmeykur við að vera öðruvísi en aðrir.
Örn Ingi var sjálfmenntaður og ósmeykur við að vera öðruvísi en aðrir.

Í dag, laugardaginn 3. nóvember kl. 15:00 verður opnuð yfirlitssýning á verkum Arnar Inga Gíslasonar (1945-2017) í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Lífið er LEIK-fimi.Sýningin er í raun skipulagður gjörningur um það hvernig bók verður til – bók um fjöllistamanninn Örn Inga sem var sjálfmenntaður og ósmeykur við að vera öðruvísi en aðrir.

Fræðistarfið sem fram fer á sýningartímanum hefst á því að skrásetja myndverk og efnistök, hlusta á frásagnir samferðamanna fjölistamannsins. Við opnun sýningarinnar eru fjölmargir viðarkassar í sýningarrýminu. Þeir eru lokaðir en við þá standa fyrrverandi nemendur listamannsins í hvítum sloppum, tilbúnir til að opna þá og hefja rannsóknarvinnuna.

„Eftir því sem á líður sýninguna verður hægt að fylgjast með störfum fræðimannsins við að taka fleiri verk upp úr kössunum (málverk, skúlptúra, tréverk, skartgripi, ljósmyndir o.fl.), skoða þau og meta, skrásetja og setja í samhengi, fá fagmenn til að gera við þau, ljósmynda, hlusta á aðra tala um þau og tengsl sín við listamanninn. Fara til baka til listaverkanna, horfa á þau og virða þau fyrir sér í nýju ljósi. Skrifa. Endurskrifa og prófarkalesa, setja upp bók og kynna á síðustu sýningarhelginni. Kassarnir standa auðir á gólfinu og myndheimur Arnar Inga umlýkur sali safnsins. Bókin er tilbúin og hún býður gestum að líta til sín á sýningartjaldið, óþreyjufull að komast á blað – á blað sögunnar,“ segir í tilkynningu.

Gestir eru hvattir til að koma oftar en einu sinni á sýninguna því hún breytist frá degi til dags. Þeir sem koma við sögu hafa unnið með fjöllistamanninum, tekið afstöðu til myndheimsins sem hann vann út frá, ferðast með honum um ókunn svæði, sótt til hans hugmyndir og efnivið um umheiminn. Hvað skildi hann eftir?

Sýningin stendur til 27. janúar 2019 og er opin alla daga kl. 12-17. 

 


Nýjast