Hús vikunnar: Þingvallastræti 2

Þegar ekið er upp Gilið og haldið áfram upp Kaupvangsstræti er tekin brött og kröpp beygja upp á brúnina og við tekur Þingvallastræti. Blasir þar við á hægri hönd skrautlegt og glæsilegt hús, Þingvallastræti 2. Húsið, sem stendur á horni Þingvallastrætis og Oddeyrargötu, reisti Jakob Frímannsson  athafnamaður, síðar kaupfélagsstjóri og heiðursborgari Akureyrar.

Snemma sumars 1929 fékk Jakob hornlóð Þingvallastrætis og Oddeyrargötu að vestan og leyfi til að reisa þar hús.  Teikningarnar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson en Jakob mun hafa haft þar hönd í bagga. Þingvallastræti 2 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með mansardþaki („brotnu risi“) og með stórum kvisti á vesturgafli. Á vesturgafli er forstofubygging og ofan á henni svalir. Bárujárn er á þaki hússins og veggir múrsléttaðir en grófur múr á kjallara. Á norðaustanverðri lóð er bílskúr sem nú hefur verið innréttaður sem skrifstofurými og snýr hann að Oddeyrargötu. Voldugir steyptir þakkantar með bogadregnum sveigjum og víðir gluggar með margskiptum póstum setja skemmtilegan svip á húsið.

Húsið var lengst af einbýli og munu þau Jakob og eiginkona hans, Borghildur Jónsdóttir hafa búið  þarna í um hálfa öld. Húsið er nokkuð sérstætt að gerð, stórskorið og skrautlegt og hefur alla tíð hlotið gott viðhald. Á lóðinni  var áður mikill skrúðgarður þeirra Borghildar og Jakobs og enn  þann dag í dag er lóðin snyrtileg og vel hirt og m.a. prýdd gróskumiklum trjám. Girðingin umhverfis hana er einnig afar tilkomumikil, járnavirki milli steyptra stöpla og er hún nýlega endurnýjuð líklega í samræmi við upprunalega gerð.  Nú er starfrækt í húsinu fasteignasalan Framtíðareign og snjalltækjaverkstæði og auk þess er íbúð í húsinu.  Myndin er tekin þann 21. ágúst 2011.                


Nýjast