Hús vikunnar: Þingvallastræti 10

Í síðustu grein gerðist undirritaður eilítið áttavilltur, og sagði Munkaþverárstræti 5 standa austanmegin við Munkaþverárstræti. Hið rétta er auðvitað, að húsið stendur VESTAN götunnar og biðst ég að sjálfsögðu velvirðingar á þessum mistökum. 

Af Munkaþverárstræti færum við okkur sunnar á Brekkuna að Þingvallastræti, gegnt Sundlauginni. Þar er skemmtileg röð reisulegra steinsteypuhúsa frá upphafi fjórða áratugar 20. aldar. Eitt þeirra er Þingvallastræti 10. En húsið reisti Ingimar Óskarsson grasafræðingur árið 1931. Fékk hann leyfi til að reisa hús á leigulóð sinni við Þingvallastræti,  8x8m að grunnfleti og  kvisti á framhlið. Húsið hlaðið úr r-steini á háum steyptum kjallara. 

Þingvallastræti 10 er að stórum hluta óbreytt frá lýsingu bygginganefndar. Seinni tíma viðbót er inngönguskúr er á austurgafli en miklar timbursvalir, standandi á stöplum á vesturgafli. Krosspóstar, með margskiptum smápóstum, eru í gluggum en á þaki er stallað bárujárn. Ingimar Óskarsson, sem fæddur var á Klængshóli í Svarfaðardal, var einn af helstu frumkvöðlum í grasafræðirannsóknum hérlendis. Hann stundaði yfirgripsmiklar rannsóknir á flóru Íslands og útbreiðslusvæði plantna  og birti um þær fjölmargar ritgerðir og greinar. Ingimar skrifaði einnig og gaf út kennslubækur í grasafræði.  Margir hafa búið í húsinu gegnum tíðina, og hér var einnig rekin lítil bókbands- og fornbókaverslunin, Glugghúsið, á níunda áratugnum.

Húsið hefur á síðustu árum hlotið viðamiklar og vandaðar endurbætur (sem og umhverfi þess og lóð). M.a. eru í húsinu nýir gluggar, sem miðast við upprunalegt útlit hússins. Húsið hafði áður verið „augnstungið“ sem kallað er, þegar margskiptir eða krosspóstar eru fjarlægðir úr gluggum.  Endurbætur hafa heppnast vel og frágangur er allur hinn snyrtilegasti og húsið til mikillar prýði í hinni geðþekku húsaröð gegnt Sundlauginni og Andapollinum. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 8. maí 2016.

 


Nýjast