Hús vikunnar: Strandgata 19b (Laxamýri)

Þessar vikurnar tek ég fyrir hús sem eiga sér nöfn, oftar en ekki bæjarheiti, frá fyrri tíð. Í síðustu viku var það Strandgata 19 sem löngum kallaðist Brattahlíð- og kallast enn. Við förum ekki langt þaðan í þessari viku heldur aðeins að næsta húsi, reist sem bakhús á sömu lóð, Strandgata 19b. Margir muna eftir Hjálpræðishernum í þessu húsi sem löngum hefur kallast Laxamýri. Oftast er það svo, að bakhús eru lágreistari en framhús en tilfelli Strandgötu 19 og 19b er þar undantekning.

Húsið reisti Sigurjón Jóhannesson árið 1906. Hann hafði verið bóndi á Laxamýri í S-Þingeyjarsýslu um áratugaskeið áður en hann reisti húsið og þannig mun nafnið til komið. Strandgata 19b er einlyft timburhús með háu portbyggðu risi og á háum kjallara. Veggir eru panelklæddir og bárujárn á þaki og krosspóstar í gluggum. Á framhlið hússins er mikill miðjukvistur sem skagar fram fyrir húsið og anddyri á neðri hæð kvists. Þar eru skrautpóstar í gluggum og einnig er húsið skreytt útskurði og hefur þannig flest einkenni hinna norsk ættuðu Sveitserhúsa. Sonur Sigurjóns var Jóhann rithöfundur og ljóðskáld, en meðal þekktra verka hans eru  leikritin um Galdra-Loft og Útilegumennina.

Húsið hefur gengt ýmsum hlutverkum gegnum tíðina. Svo sem áður segir, var Hjálpræðisherinn hér til húsa lengi vel og hafði hér bæði samkomusal og gistiheimili.  Síðar hafði Akureyrarbær skrifstofur í húsinu en húsið hefur verið íbúðarhús, einbýli, í rúma tvo áratugi. Strandgata 19b er tilkomumikið og skrautlegt hús og til mikillar prýði í umhverfi sínu. Myndin er tekin þann 20. ágúst 2017.


Nýjast