Hús vikunnar: Norðurgata 2

Líkt og fram kom í síðustu grein, er greinarhöfundi aðeins kunnugt um tvö hús á Akureyri sem klædd eru steinskífu. Skífur þessar mynda skemmtilegt munstur sem gefa húsunum sérstætt og einstakt yfirbragð. Steinskífuhúsin standa á svipuðum slóðum á sunnanverðri Oddeyrinni, annars vegar Strandgata 23 og hins vegar Norðurgata 2.

Norðurgötu 2 mun Snorri Jónsson byggingameistari hafa reist árið 1897 fyrir Þorvald Guðnason. Um svipað leyti var Snorri í óða önn að reisa eigið hús við Strandgötu, næst sunnan við Norðurgötu 2. Það var eitt stærsta timburhús bæjarins og var einnig steinskífuklætt lengst af, en var rifið 1987. Norðurgata 2 er einlyft timburhús með portbyggðu risi, á lágum kjallara og með miðjukvisti. Á bakhlið er inngönguskúr auk uppgöngu á rishæð, en þeim megin er þak aflíðandi (risi lyft). Sem fyrr segir er húsið klætt steinskífu en bárujárn er á þaki og í gluggum eru þverpóstar. 

Auk íbúðarhússins reisti Þorvaldur á lóðinni fjós og skúr um 1902. Þær byggingar eru nú löngu horfnar.  Árið 1911 reisti þáverandi eigandi, Soffanías Baldvinsson, bakhús sem enn stendur, Norðurgötu 2b. Það hús hefur hýst hina ýmsu starfsemi m.a. reykhús, félagsheimili og um tíma hljóðver Ríkisútvarpsins.  Norðurgata 2, þ.e. framhúsið sem alla tíð hefur verið íbúðarhús er lítt breytt frá upphafi. Steinskífuklæðningin mun hafa verið sett á húsið eftir 1916, en þá var það, í brunabótamati, sagt járnklætt. Um 1954, var austurhluti rishæðar byggður upp á þann hátt, að frá mæni á milli stafna er full lofthæð undir aflíðandi þaki (ekki undir súð). Kallast þetta að „lyfta risi“.  

Nú munu vera tvær íbúðir í Norðurgötu 2, á hæð og í risi. Húsið er til sérlegrar prýði í umhverfinu  enda gefur steinskífan húsinu einstakan svip. Þá er lóðin vel gróin og í góðri hirðu. Myndin er tekin fyrir um hálfum öðrum áratug, 5. júní 2006.


Nýjast