Hús vikunnar: Lækjargata 4

Líklega eru mót Spítalavegar og Lækjargötu ein þrengstu gatnamót bæjarins. Spítalavegurinn liggur þar milli stafna tveggja tvílyftra timburhúsa. Annað þeirra, Lækjargata 6, er rúmlega 130 ára og hitt, Lækjargata 4, er tæplega 150 ára. Síðarnefnda húsið byggði maður að nafni Stefán Thorarenssen árið 1870. Það er, sem áður segir, tvílyft timburhús á lágum steinhlöðnum grunni og með háu risi. Á vesturstafni er tvílyft viðbygging (forstofubygging) úr steinsteypu og er hún með lágu risi. Húsið er klætt láréttri timburklæðningu á veggjum, bárujárn er á þaki og sexrúðupóstar í gluggum.

Lækjargata 4 var upprunalega heyhlaða á baklóð Aðalstrætis 6. Annar eigandi hússins, Hinrik Schiöth, breytti húsinu í krambúð og vörugeymslu og gegndi húsið því hlutverki um áratugaskeið. Á neðri hæð var skrifstofa og verslun en vörugeymslurými á lofti. Var húsið einlyft með háu risi framan af, en um 1920 var það hækkað um eina hæð og hefur þá líklega fengið það lag sem það síðan hefur.  Þremur árum síðar var byggð forstofubygging úr steinsteypu við vesturgafl og húsinu breytt í íbúðarhús fljótlega eftir það. Margir hafa átt húsið og búið þar en, á síðustu áratugum hefur húsið verið einbýli. Í febrúar 1936 kviknaði í húsinu og mátti litlu muna að það brynni til grunna. En þær skemmdir voru lagfærðar og enn stendur húsið með glæsibrag.

Húsið hefur hlotið miklar og gagngerar endurbætur á síðustu árum, að utan jafnt sem innan, og er til mikillar prýði. Er það sannarlega ein af mörgum perlum Innbæjarins. Myndin er tekin þann 19. desember 2015.


Nýjast