Hús vikunnar: Hamrar I

Hamra, hina stórfenglegu útivistarparadís norðan Kjarnaskógar þekkja flestir Akureyringar. Hið rómaða tjaldsvæði þar þekkja líklega landsmenn allir, að ógleymdum öllum þeim þúsundum ferðamanna, hvaðanæva úr heiminum, sem sótt hafa svæðið heim. Hamrar voru frá fornu fari ágæt bújörð og þar standa, auk gamalla hlaða og gripahúsa tvö íbúðarhús, Hamrar I og II. Í þessari viku er eldra íbúðarhúsið til umfjöllunar, og í næstu viku það yngra.

Hamrar I er einlyft steinsteypuhús með aflíðandi einhalla þaki (skúrþaki) undir miklum steyptum köntum og dregur nokkurn dám af Funkis-stíl. Húsið reisti Jóhann Jósefsson árið 1951 og leysti húsið af hólmi torfbæ, sem í Manntali 1940 er sagður „um 60 ára“ og hefur þannig verið reistur um 1880 en þarna höfðu staðið bæjarhús frá fornu fari. Jóhann var kvæntur Jónínu Rósu Stefánsdóttur en þau fluttust að Hömrum frá Úlfá í Eyjafjarðardal árið 1925 og bjuggu hér um áratugaskeið. Sonur Jóhanns, Valtýr, tók við búinu árið 1962 og árið 1970 taldi bústofn Hamra 18 kýr, 4 geldneyti og eitt hross og túnin voru 16,8 ha. Búskapur mun hafa lagst hér af árið 1979 en húsið var nýtt til íbúðar allt til ársins 1998. Þá þegar var hafið hér „landnám“ skáta og hafin stórfelld uppbygging tjaldsvæða og útilífsmiðstöðvar. Tjaldsvæðið var opnað formlega í júnílok 2000.

Hamrar I hefur síðustu árin verið nýtt með ýmsum hætti undir skátastarf, útilegur, fundi og hér var Útilífsskólinn starfræktur um árabil. Er það einmitt tákn Útilífsskólans sem var og hét, Laufi, sem prýðir húsið að utan, en þessi ágæta „fígúra“ var einnig notuð á Landsmóti Skáta í Kjarnaskógi árið 1993. Myndin er tekin þann 18. júní 2013.


Nýjast