Hús vikunnar: Hafnarstræti 82

Fáein hús í bænum eiga aldarafmæli á þessu ári. Þar á meðal er Hafnarstræti 82, sem ýmsir þekkja sem „timburhúsið“, eða í seinni tíð sem „Umferðarmiðstöðina“. Hafnarstræti 82 var reist árið 1919 fyrir Kaupfélag Eyfirðinga og hýsti byggingarvörudeild félagsins um áratugaskeið. Húsið er tvílyft steinsteypuhús með háu portbyggðu risi og tveimur stórum kvistum sem ganga í gegn um þekju. Árið 1919 var Hafnarstræti 82 eitt stærsta steinhús bæjarins, enda eitt af tiltölulega fáum slíkum. Húsið er byggt á uppfyllingu suður af Torfunefi, en efnið í hana var sótt úr brekkunni vestan Hafnarstrætis þar sem nú er m.a. Hótel KEA.

Sem áður segir var húsið byggt sem byggingavöruverslun og vöruhús fyrir timbur, og var þannig jafnan kallað „timburhúsið“. Húsið gegndi því hlutverki í rúma fjóra áratugi, en árið 1963 fluttist byggingavörudeildin í nýtt húsnæði við Glerárgötu. Hefur húsið síðan hýst hina ýmsu starfsemi.  KEA nýtti húsið áfram undir bögglageymslu og síðar bifreiðastöð (Bifröst) og seint á níunda áratugnum var innréttuð þarna Umferðarmiðstöð. Um árabil, eða fram yfir 2010 var húsið miðstöð rútusamgangna til og frá Akureyri ásamt upplýsingamiðstöð ferðamanna og þarna höfðu rútufyrirtæki aðsetur. Á efri hæðum voru skrifstofurými og einnig voru þar íbúðir. Nú er rekið gistiheimili í öllu húsinu.

Hafnarstræti 82 hefur líkast til alla tíð hlotið afbragðs viðhald og er í mjög góðri hirðu á aldarafmæli sínu. Það er eitt af  kennileitum miðbæjarins og setja kvistirnir, tveir á hvorri hlið,  ákveðinn svip á húsið.  Þessi mynd er tekin fyrir tæpum áratug, 6. mars 2010.


Nýjast