Hús vikunnar: Grundargata 7

Gleðilegt nýtt ár kæru lesendur og þakkir fyrir það liðna. Mér þykir viðeigandi að velja sem fyrsta „Hús vikunnar“ eitt sem á stórafmæli á árinu. Grundargata 7 á Eyrinni á aldarafmæli árið 2020.  Þann 19. maí í vor verða liðin 100 ár síðan byggingarnefnd Akureyrar heimilaði  Sæmundi G. Steinssyni að reisa íbúðarhús úr steinsteypu á horninu sunnan Gránufélagsgötu og vestan Grundargötu. Leyfið var veitt með skilyrðum þess efnis að á lóðarmörkum væri eldvarnarveggur (þ.e. veggur án glugga og dyra).

 Grundargata 7 er tvílyft steinsteypuhús á háum kjallara en það er e.t.v. álitamál hvort flokka eigi neðstu hæð sem jarðhæð  eðe kjallara, þar eð hún er ekki mikið niðurgrafin. Húsið skiptist í raun í tvær álmur. Önnur, sem liggur meðfram Grundargötu, er með lágu risi en sú hlið sem snýr að Gránufélagsgötunni er með einhalla þaki og er eilítið hærri. Bárujárn er á þaki og krosspóstar eru í gluggum.

Árið 1920, þegar húsið var byggt, var tekið manntal og bjuggu þá tvær fjölskyldur í húsinu. Annars vegar áðurnefndur Sæmundur Steinsson, sem titlaður er afhendingamaður, kona hans Magnea Magnúsdóttir og börn þeirra. Hins vegar Stefán Sigurðsson salthússtjóri og ráðskona hans, Þórdís Ingimundardóttir og börn hennar. Líklega hafa verið íbúðir á sitt hvorri hæðinni, en geymslur eða verkstæði  í kjallara. Húsið mun í stórum dráttum lítt breytt frá upphafi, nema inngönguskúr á bakhlið var gerður 1979. Það er nokkuð sérstakt að gerð og lögun og setur skemmtilegan svip á umhverfið. Húsið mun löngum hafa gengið undir nafninu Múlinn eða Ólafsfjarðarmúlinn, mögulega vegna hin sérstæða byggingarlags. Nú eru þrjár íbúðir í húsinu, ein á hverri hæð. Myndin er tekin 21. október 2017.

 


Nýjast